Andri Guðmundsson, meðstofnandi Vaxa, segir frá því í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins hvernig rannsóknir á vegum Geimferðastofnunar Bandaríkjanna (NASA) knýja öran framleiðnivöxt hjá hátæknigróðurhúsum. Það geti svo haft mikla þýðingu fyrir matvælaframleiðslu á Íslandi á næstu árum.
Vaxa var stofnað árið 2017 og byrjaði að rækta salat í gróðrarstöð sinni í Grafarholti í Reykjavík í lok árs 2018. Fyrsta uppskeran var í byrjun árs 2019 og selur félagið vörur sínar til veitingastaða og matvöruverslana hérlendis. Auk þess að vera með ræktun á Íslandi er Vaxa með starfsemi í bænum Kumla, skammt frá Örebro í Svíþjóð.
„Það eru um þrjú ár síðan við ákváðum að sækja inn á hin Norðurlöndin. Okkur þótti það rökrétt næsta skref, m.a. vegna þess að markaðurinn á margt sameiginlegt með þeim íslenska. Við enduðum á að hefja starfsemi í Svíþjóð. Við skoðuðum fasteignir í Noregi, Svíþjóð og Danmörku en veljum á endanum Svíþjóð.“
Um er að ræða húsnæði á einni hæð, fjörutíu metra undir yfirborði jarðar, þar sem eitt sinn var náma. Síðustu tvo áratugina hefur í námunni að hluta til verið starfrækt skjalageymsla
„Húsnæðið er um 400 þúsund fermetrar en við erum í dag að nota um 10 þúsund fermetra. Það gefur því augaleið að húsnæðið er mjög skalanlegt. Við seldum fyrstu vörur í verslanir í Svíþjóð fyrir rúmu ári og erum með það til skoðunar að sinna Norðurlöndunum í heild sinni frá Kumla.“
Andri segir stjórnendur Vaxa sjá tækifæri til að sækja inn á fleiri markaði, en á þessum tímapunkti hafi ekki verið tekið nein ákvörðun um með hvaða hætti það verður. „Stóra verkefnið núna er að byggja okkur upp á Norðurlöndunum og svo sjáum við til með hvaða tækifæri bjóðast síðar. Hvort sem það eru önnur Evrópulönd, Mið-Austurlönd eða geimurinn, við höldum því bara opnu,“ segir hann kíminn.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.