Ljóst er að aukin harka hefur færst í íslenskan smásölumarkað eftir Costco opnaði dyr sínar í Garðabæ. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að nokkrum íslenskum framleiðendum hafi borist þau skilaboð frá Högum að ef þeir hyggist selja vörur sínar í Costco þá verði þær teknar úr hillum verslana Bónuss og Hagkaupa. Viðmælandi Viðskiptablaðsins, sem ekki vildi láta nafn síns getið, segir himin og haf milli samskipta fyrirtækis hans við Costco annars vegar og íslenskar verslanir hins vegar.
Selja vörur undir kostnaðarverði
Sem dæmi um hörkuna sem komin er á markaðinn þá hefur Viðskiptablaðið heimildir fyrir því að það hafi mælst illa fyrir hjá Högum þegar Costco bauð íslensku matvælafyrirtæki að taka vörur þess inn í verslunina í Garðabæ. Eftir að boð Costco spurðist út fékk forsvarsmaður matvælafyrirtækisins símtal frá Högum, þar sem honum var gerð grein fyrir því að ef vörurnar yrðu seldar í Costco myndu þær ekki verða seldar í verslunum Haga.
Samkvæmt heimildum blaðsins eru eigendur rótgróinna íslenskra verslana uggandi yfir stöðunni. Sérstaklega þykir þeim slæmt að Costco skuli selja vörur sem fást víða á Íslandi, meðal annars íslensk matvæli, undir kostnaðarverði. Þetta getur Costco gert því fyrirtækið er ekki með markaðsráðandi stöðu hérlendis. Einn forsvarsmanna íslenskrar verslunar sagði að Costco væri augljóslega að gera þetta til þess að fá neytendur inn í verslunina og kaupa vörur eða vörumerki, sem ekki væru fáanlegar í öðrum verslunum hérlendis. Álagningin á þær vörur væri auðvitað nokkur.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.