Ríkisstjórn Tansaníu hefur ákveðið að loka fyrir aðgang að samfélagsmiðlinum X og segir ástæðuna vera vegna aðgengi miðilsins að klámfengnu efni. Á vef BBC segir að aðgangur að X hafi verið takmarkaður undanfarnar tvær vikur vegna pólitískrar spennu.

Jerry Silaa, upplýsingaráðherra Tansaníu, segir að efnið sem finna megi á X sé í andstöðu við lög, menningu, siði og hefði landsins.

Mannréttindasamtök í Tansaníu birtu færslu á X eftir ummæli ráðherrans og sögðu athugasemdir hans endurspegla vandræðalegt mynstur þegar kæmi að stafrænni kúgun í aðdraganda forsetakosninga sem fara fram í október.

Ríkisstjórn Tansaníu undir leiðsögn Samiu Suluhu Hassan hefur ítrekað verið sökuð um að beita kúgunaraðferðum til að viðhalda völdum í landinu.

Mannréttindasamtök bæta við að samfélagsmiðlarnir Clubhouse og Telegram séu einnig óaðgengilegir í Tansaníu án notkunar VPN.