Sjú Enlæ, fyrsti forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína, sagði stoltur árið 1975 að kínverska ríkið væri alveg skuldlaust „í samanburði við efnahagslegu ringulreiðina og verðbólguna sem finnst í hinum kapítalíska heimi.“
Enlæ lét orðin falla í ræðu fyrir kínverska þinginu en hann fagnaði því þar að ríkinu hefði tekist að halda jafnvægi milli tekna og útgjalda án skuldasöfnunar.
Robin Harding, ritstjóri Asíumarkaða fyrir Financial Times, rifjar upp ummæli Enlæ í skoðanapistli í morgun samhliða forsíðufrétt FT um mögulega bólu á skuldabréfamarkaði í Kína sem gæti sprungið fyrir árslok.
Sjú Enlæ, fyrsti forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína, sagði stoltur árið 1975 að kínverska ríkið væri alveg skuldlaust „í samanburði við efnahagslegu ringulreiðina og verðbólguna sem finnst í hinum kapítalíska heimi.“
Enlæ lét orðin falla í ræðu fyrir kínverska þinginu en hann fagnaði því þar að ríkinu hefði tekist að halda jafnvægi milli tekna og útgjalda án skuldasöfnunar.
Robin Harding, ritstjóri Asíumarkaða fyrir Financial Times, rifjar upp ummæli Enlæ í skoðanapistli í morgun samhliða forsíðufrétt FT um mögulega bólu á skuldabréfamarkaði í Kína sem gæti sprungið fyrir árslok.
Útgáfuáætlun kínverska ríkisins gerir ráð fyrir á þriðja hundrað milljarða dala skuldabréfaútgáfu fyrir árslok sem gæti „sprengt bóluna“ á skuldabréfamarkaði.
Samkvæmt FT eru aðilar nátengdir kínverska seðlabankanum að reyna vara við því að ríkið fylgi áætluninni en á síðustu dögum hefur gríðarleg sókn í kínversk skuldabréf ýtt verðinu upp og þrýst ávöxtunarkröfunni á tíu ára bréfunum niður í 2,2%.
Samkvæmt opinberum gögnum frá kínverska ríkinu á ríkið enn eftir að gefa út um helming af langtímabréfunum sem eru á útgáfuáætlun fyrir árið 2024.
Um er að ræða langtímabréf sem er ætlað að fjármagna sveitarfélög og ríkisvaldið en samkvæmt áætluninni þarf ríkið að gefa út skuldabréf fyrir 2,68 billjón (e.trillion) renminbi eða sem nemur 51,6 þúsund milljörðum íslenskra króna.
„Þegar þessi skuldabréf ríkis og sveitarfélaga, sem eru gefin út vegna fjárlagahalla, springa í lok árs eru gríðarlega miklar líkur á kúvendingu á ávöxtunarkröfunni,“ segir heimildarmaður FT sem er sagður nátengdur kínverska seðlabankanum.
Að mati Harding er þetta tilefni til að rifja upp ummæli Enlæ því þau endurspegla enn viðhorfið hjá fjármálaráðuneyti Kína.
Skuldir kínverska ríkisins eru 24% af vergri landsframleiðslu sem telst ekki hátt hlutfall í alþjóðlegum samanburði en kínverska ríkið er afar tregt að leyfa hlutfallinu að hækka.
Á hinn bóginn liggur skuldahlutfall sveitarfélaga í kringum 93% af VLF samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem er vanmat að mati Harding.
Kínversk sveitarfélög og héruð sjá um nær öll útgjöld í Kína hvort sem um er að ræða útgjöld til menntamála, húsnæðis- eða heilbrigðismála. Um 55% af skatttekjum renna beint til þeirra en þau eyða um 85% af öllum tekjum ríkisins.
Hæg efnahagsumsvif síðastliðið ár hafa leitt til þess að Kínverjar hafa þurft að gefa út gríðarlega mikið af skuldabréfum til að mæta skuldbindingum sínum. Fjölmörg löng ríkisbréf til að fjármagna sveitarfélögin hafa farið á markað síðastliðið ár sem og löng ríkisbréf með það í huga að reyna örva efnahaginn.
Aukin útgáfa ríkisbréfa, samhliða minni efnahagsumsvifum og veikum hlutabréfamarkaði í Kína, hefur leitt til þess að kínverskir bankar hafa keypt gríðarlega mikið af ríkisskuldabréfum.
Áhyggjur eru því að aukast að bóla sé á skuldabréfamarkaði sem gæti sprungið. Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa til tíu ára í Kína fór niður í 2,12% í mánuðinum sem er það lægsta í sögunni.
Kínverski Seðlabankinn er byrjaður að hafa áhyggjur af því að fjárfestingasjóðir og bankar séu að halda á of mikið af langtímabréfum sem gæti komið þeim í töluverð vandræði þegar vöxtum verður breytt.
Samkvæmt FT er um svipaða stöðu að ræða og felldi Silicon Valley Bank.
„Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa til lengri tíma hefur vikið frá sínu eðlilega horfi og sýnir öll merki um að það sé bóla,“ sagði Sjú Dsjong, aðstoðarforstjóri samtaka um fjármálamarkaði sem er undirstofnun kínverska Seðlabankans, fyrr í mánuðinum.
Að mati Harding er ljóst að breytinga er þörf þar sem kínverska ríkið neyðir sveitarfélögin til að sjá um alla þjónustu en neitar að skuldsetja sig til að fjármagna hana.
Hann bendir jafnframt á að afleiðingar þessa megi sjá í bólunni sem myndaðist á kínverskum fasteignamarkaði er fjárþurfa sveitarfélög seldu lóðir í stórum stíl í leit að tekjum.
Samhliða því að húsnæðismarkaðurinn í Kína er í töluverðum vandræðum hefur ríkið einnig meinað sveitarfélögunum að gefa út skuldabréf sjálf heldur fer öll fjármögnun í gegnum ríkið.