James Quincey, forstjóri Coca-Cola, býst ekki við því að e.coli-sýkingin sem greind var í hamborgurum McDonalds muni koma til með að hafa neikvæð áhrif á sölu drykkjarframleiðandans.
McDonalds er stærsti viðskiptavinur Coca Cola en nýlega var greint frá því að hátt í 50 tilfelli af e.coli-sýkingu hafi sprottið upp víðs vegar um Bandaríkin, flest í Colorado og Nebraska.
Alls hafa tíu einstaklingar verið fluttir á sjúkrahús, þar á meðal eitt barn með nýrnabilun, og hefur einn nú þegar látist. CDC segir að allir þeirra sem sýktust af sama afbrigði e.coli hafi borðað McDonald’s skömmu fyrir veikindi og höfðu flestir pantað sér Quarter Pounder.
„Við erum jafn mikilvægur samstarfsaðili fyrir McDonald‘s og þeir eru gagnvart okkur. Við munum hjálpa þeim eins og við getum að vinna í gegnum þetta,“ sagði Quincey.
Skyndibitakeðjan sagði í tilkynningu í dag að Quarter Pounder-hamborgararnir verði tímabundið ófáanlegir í nokkrum vestrænum ríkjum, þar á meðal í Colorado, Kansas, Utah og Wyoming.