Rúmir tveir mánuðir eru síðan Hæstiréttur sagði ÁTVR hafa brotið gegn lagaáskilnaðar­reglu stjórnar­skrárinnar með því að miða vöruúr­val út frá fram­legð en að mati Distu ehf. ýtti ÁTVR þannig dýrari vörum að neyt­endum og mis­munaði vörum inn­flytj­enda.

Í kjölfar dóms Hæstaréttar benti Dista bæði ÁTVR og fjármálaráðherra (sem fer með stjórnunar- og eftirlitsskyldu með stofnuninni) á að félagið teldi Ívar J. Arndal forstjóra ÁTVR vanhæfan til að fjalla um yfirbót vegna ólögmætrar háttsemi og réttarbrota stofnunarinnar. Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra telur það þó ekki varhugavert.

Líkt og Við­skipta­blaðið hefur fjallað um á síðustu dögum hefur stofnunin enga yfir­bót sýnt frá því að dómur Hæstaréttar féll og tók meðal annars tvær vörur Dista úr sölu í byrjun mánaðar á grund­velli hins ólög­mæta viðmiðs.

Í bréfa­sam­skiptum Dista við fjár­málaráðu­neytið er m.a. bent á að stofnuninni bæri að fara að lögum en gerði það ekki og hunsaði ábendingar þar um.

„Jafn­framt er það ágætur vottur um van­hæfi að stofnunin lætur hjá líða að svara því hvort og þá hvernig rétta eigi hlut um­bjóðanda míns, sem þó var megin­mál­efni þessa bréfs (frá 9. desember sl.) sem ÁTVR var að svara,“ segir í bréfi lög­manns Dista til ÁTVR þann 30. desember sl. sem ráðherra fékk af­rit af.

„Aðal­málið er að þegar taka þarf ákvarðanir um úr­bætur vegna ólög­mætrar hátt­semi þá er for­stjórinn sjálfur að taka af­stöðu til eigin gjörða og þá til eigin ábyrgðar,“ segir Jónas Fr. Jóns­son lög­maður Dista í sam­tali við Við­skipta­blaðið.

Daði Már Kristó­fers­son fjár­málaráðherra telur það þó ekki var­huga­vert að Ívar sinni þessum yfir­bótum, samkvæmt svörum ráðuneytisins við fyrirspurnum Dista.

ÁTVR ekki tekið inn nýjar vörur

Inn­flutnings­fyrir­tækið Dista ehf. stefndi ÁTVR árið 2021 í kjölfar þess er tveir bjórar félagsins voru felldir úr sölu á grund­velli fram­legðar­viðmiðs þrátt fyrir að fleiri lítrar hafi selst af þeim en af öðrum bjórum í sama vöru­flokki sem þó voru áfram í sölu.

ÁTVR sýndi ekkert frum­kvæði að yfir­bót í kjölfar dómsins og benti lög­maður Dista stofnuninni og fjár­málaráðherra á skyldur stjórn­valda til að virða reglur réttarríkisins og megin­reglur stjórnsýsluréttar um að stjórn­völdum bæri að bæta úr þegar þau hefðu gengið á rétt borgaranna.

Undir lok síðasta árs sendi Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, Dista bréf þess efnis þar sem kom efnislega fram að unnið væri að „nýju viðmiði“ við mat á söluárangri og meðan sú vinna stæði yfir yrðu „tafir á birtingu skrár yfir söluárangur“ og að færsluákvörðunum væri að sama skapi „frestað þar til útfærsla nýs árangursviðmiðs liggur fyrir“.

Í bréfinu er einnig sagt rang­lega, að mati Distu, að dómur Hæstaréttar svaraði ekki „á hvaða mæli­stiku söluárangur á grund­velli eftir­spurnar skuli metinn eða mældur.“

„Þegar brotið er á rétti borgarans hvílir á stjórn­völdum ákveðin skylda til að bæta úr því,“ segir Jónas í sam­tali við Við­skipta­blaðið en hann hafnar því al­farið að það megi viðhalda ólög­mætu ástandi „meðan unnið er að nýju viðmiði.“

„Það þýðir ekkert að frysta ólög­mætt ástand og hætta að taka inn vörur,“ segir Jónas en ÁTVR hefur ekki verið að taka inn nýjar vörur síðastliðna mánuði. „Þeir eru ekki að taka inn nýjar vörur á grund­velli eftir­spurnar sem er hið lög­mælta viðmið.“

Hæstiréttur kvað á um gildandi rétt

Í dómi Hæstaréttar í byrjun desember segir mjög skýrt að eftir­spurn sé eitt þeirra viðmiða þegar kemur að vöruúr­vali en þar er átt við sölu­magn vöru.

„ÁTVR ber að fara eftir gildandi lögum og er því óheimilt að hunsa niður­stöðu dómstóla og fresta af­greiðslu mála á meðan beðið sé „út­færslu á nýju viðmiði“. Þessu til viðbótar er það hvorki ÁTVR né FJR að taka ákvörðun um „nýtt viðmið“ þegar Hæstiréttur hefur slegið föstu hvert viðmiðið sé sam­kvæmt lögum. Slíkt væri því ein­göngu á hendi löggjafans og að upp­fylltum laga­skil­yrðum stjórnar­skrár,” segir í bréfi Jónasar til ÁTVR sem Daði Már Kristó­fers­son fjár­málaráðherra fékk af­rit af.

Í bréfinu segir einnig að önnur fram­kvæmd af hálfu stofnunarinnar feli í sér ásetning um að viðhalda ólög­mætu ástandi og leiði til mis­notkunar opin­bers valds.

Valda meiri tjóni af ásetningi

Dista hefur krafist þess að fimm vörur félagsins fari úr reynslu yfir í svo­kallaðan kjarna­flokk vegna þeirra upp­lýsinga sem félagið hefur um sölutölur þeirra.

Félagið hefur bent bæði fjár­málaráðherra og ÁTVR á að at­hafna­leysi er til þess fallið að valda félaginu tjóni og að þessu sinni yrði það gert af ásetningi.

Dista óskaði eftir sölutölum á vörum fyrir nóvember­mánuð í fyrra og sölu yfir tólf mánaða tíma­bil þar á undan fyrir allar vöru­deildir í reynslu­flokki og kjarna­flokki.

Þá hefur Dista áréttað þessa beiðni í erindi frá 4. febrúar og einnig farið fram á upp­lýsingar um sölutölur yfir tólf mánaða tíma­bil miðað við lok desember og janúar.

Eftir því sem Jónas segir hefur slíkt gagnsæi tíðkast í tölu­verðan tíma hjá ÁTVR sem nú hefur ákveðið að upp­lýsa ekki um sölutölur og af­nema gagnsæi. Gagnsæi sé hins vegar eitt af skil­yrðum fyrir vöru­vals­reglum einkasölu skv. 16. gr. EES-samningsins.

Tjónið meira en tvær vörur

Ríkislög­maður skoðar nú bóta­skyldu en Dista hefur stefnt ríkinu til viður­kenningar á bóta­skyldu vegna þeirra tveggja vara sem Hæstiréttur tók fyrir.

Hins vegar er ljóst að hin ólög­mæta hátt­semi leiddi til þess að fjöldi vöru­tegunda Dista voru felldar úr sölu með til­heyrandi tjóni og eru líkur á að aðrir vín­inn­flytj­endur gætu átt sam­bæri­lega kröfu á ríkið.

„Því miður þá virðist ekki vera vilji til að bæta úr þegar þessi ríkis­stofnun verður upp­vís að því að hafa brotið á rétti borgaranna. Þá er einnig fryst ólög­mætt ástand og meira að segja haldið áfram að fram­kvæma ólög­mætar ákvarðanir með því að henda út vörum eftir dóm Hæstaréttar,“ segir Jónas.

Faxe-bjórinn sem felldi ríkið

Dista stefndi ÁTVR fyrir dómi í júní 2021 og krafðist þess að ákvörðun stofnunarinnar að hætta inn­kaupum á bjór­tegundunum Faxe IPA og Faxe Wit­bier yrði ógilt, en ákvörðunin byggði á því að fram­legð varanna væri minni en annarra vara sem héldu áfram sölu.

Í reglu­gerð segir að fram­legð, mis­munur á inn­kaups- og sölu­verði að frá­dregnum virðis­auka­skatti, síðastliðna tólf mánuði skuli ráða for­gangi vöru til dreifingar.

Til að bjór geti komist í svo­kallaðan kjarna­flokk þarf hann að falla í flokk þeirra fimmtíu bjóra sem besta hafa fram­legðina.

Bjór­tegundirnar tvær sem deilt var um, Faxe IPA og Faxe Wit­bier, voru felldar úr kjarna­flokki á grunni nefndra vöru­vals­reglna ÁTVR, þrátt fyrir að fleiri lítrar af þeim hafi selst en í til­felli annarra bjóra í sama vöru­flokki. Taldi Dista að skv. lögum ætti að miða vöru­val við eftir­spurn, þ.e. seld magn vöru.