Tölvuleikjagerð hefur vaxið hratt síðustu misseri hér á landi, meðal annars þökk sé auknum opinberum stuðningi. Sá stuðningur er þó tímabundinn og rennur að óbreyttu út um áramótin, og Þorgeir F. Óðinsson, formaður Samtaka leikjaframleiðenda og framkvæmdastjóri Directive Games, segir stefna í mikið bakslag, verði hann ekki framlengdur.
Í dag starfa 20 fyrirtæki við tölvuleikjagerð á Íslandi, en samanlagður starfsmannafjöldi þeirra hefur aukist um þriðjung frá byrjun síðasta árs. Virkir mánaðarlegir notendur hafa vaxið enn hraðar, úr rétt tæpum 700 þúsund um mitt árið 2019 í 4,3 milljónir í dag.
„Það er búinn að vera lygilega mikill uppgangur í iðnaðinum síðustu ár. Það er eiginlega ekki hægt að orða það öðruvísi,“ segir Þorgeir. Hann segir enn fremur að greinin hafi sveiflujafnandi áhrif á hagkerfið, og bendir á uppganginn þrátt fyrir heimsfaraldurinn. „Tölvuleikjaiðnaður er bara einstaklega kreppuþolinn.“
Hann sé hins vegar afar næmur fyrir opinberum hvötum þar sem alþjóðleg samkeppni sé hörð, og því til bæði mikils að vinna og tapa eftir því hvernig stjórnvöld haldi á spilunum. „Það er ekkert í vatninu hérna sem gerir Ísland sérstaklega ákjósanlegt fyrir framleiðslu tölvuleikja.“
Hugverk orðin 15% útflutningstekna
„Við erum á brún umbyltingar í íslensku efnahagskerfi. Útflutningur hefur að langmestu leyti verið auðlindadrifinn hingað til eins og flestir þekkja. Hugverkaiðnaðurinn hefur hins vegar verið að ryðja sér til rúms sem ný stoð útflutnings.“
Samanlagðar útflutningstekjur hugverkaiðnaðarins eru nú um 15% af heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins. Þorgeir segir þó að betur megi ef duga skuli; til að tryggja hagsæld hér á landi til lengri tíma þurfi að þrefalda eða fjórfalda íslenskan hugverkaiðnað.
„Það er draumurinn. Þannig tryggjum við framtíðarmöguleika þjóðarbúsins. Við getum því miður ekki stækkað hinar auðlindirnar, en við getum selt eins mikið hugverk og við viljum.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .