Brim hefur sent frá sér lögformlegt tilboðsverð til allra hluthafa í HB Granda í kjölfar kaupa félagsins á 34,01% af heildarhlutafé í félaginu sem Viðskiptablaðið greindi fyrst frá af félögum tengdum Kristjáni Loftssyni í Hval hf. Tilboðið nær til þeirra hluthafa sem skráðir eru í HB Granda í upphafi dags 30. maí, það er á miðvikudag, en ekki til þeirra sem skráðir eru í hlutaskrá eftir það.

Tilboðsverðið nemur 34,3 krónum á hlut, eða sem samsvarar 35 krónum á hlut fyrir arðgreiðslu upp á 70 aura á hlut. Svarar það til hæsta verðs sem Brim og samstarfsaðilar þess greiddu fyrir hluti í HB Granda síðustu sex mánuði. Gildistími yfirtökutilboðsins er frá klukkan 9:00 þann 1. júní næstkomandi til 17. þann 29. júní næstkomandi.

Ef allir hluthafar í HB Granda taka tilboði Brims mun félagið þurfa að greiða rétt tæplega 41 milljarð fyrir herlegheitin miðað við þetta verð, en eins og Viðskiptablaðið hefur þegar greint frá hyggst tilboðsgjafi ekki afskrá HB Granda úr kauphöll og hafa stórir hluthafar þegar samþykkt að vera áfram hluthafar í félaginu og því ekki taka yfirtökutilboðinu.

Ef allir aðrir en fjórir stórir lífeyrissjóðir sem eiga samtals um 36% í félaginu tækju tilboðinu þyrfti Brim hins vegar að borga tæplega 19 milljarða króna fyrir bréfin.

Segir í yfirlýsingu Brim að það sé styrkur fyrir HB Granda að vera skráð á skipulögðum verðbréfamarkaði þannig að það hafi fjárhagslegan styrk til að vaxa og dafna enn frekar með kaupum á félögum í skyldri starfsemi, efla markaðs- og þróunarstarf og þar með verðmæti hluthafa félagsins.

Fyrir utan 34% eignarhlut Brim eru stærstu hluthafar félagsins:

  • Lífeyrissjóður verslunarmanna með 13,66%
  • Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild 9,29%
  • Gildi lífeyrissjóður 8,62%
  • Birta lífeyrissjóður 3,95%
  • Aðrir hluthafar eiga samtals 30,47%

Fleiri fréttir um málefni HB Granda og Brim: