Hviklyndi hefur einkennt skuldabréfamarkaðinn vestanhafs síðustu daga á meðan fjárfestar virðast óákveðnir um hvernig vaxtalækkunarferli seðlabankans verður háttað.
Á föstudaginn greindi vinnumálaráðuneyti Bandaríkjanna frá því að 254 þúsund ný störf yrðu til í síðasta mánuði.
Spár greiningaraðila voru að áætla um 150 þúsund ný störf í mánuðinum og því ljóst að vinnumarkaðurinn er mun öflugri en gert var ráð fyrir.
Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa til tíu ára tók við sér að nýju eftir að hafa verið á stöðugri niðurleið síðan í aprílmánuði. Krafan hækkaði um 0,13% í dag og fór upp í 4,02% en þegar krafan hækkar lækkar virði skuldabréfsins.
Samkvæmt Financial Times eru fjárfestar að búa sig undir enn frekara flökt á morgun þegar verðbólgutölur verða birtar.