Disney hefur samþykkt að greiða 439 milljónir dala, eða um 55 milljarða króna, til viðbótar vegna kaupa á þriðjungshlut Comcast í streymisveitunni Hulu á árinu 2023. Afþreyingarrisinn hefur þar með endanlega tryggt sér fullt eignarhald yfir Hulu.
Disney, sem eignaðist tvo þriðju af hlutafé Hulu með kaupum á 21st Century Fox árið 2019, tilkynnti í nóvember 2023 um að félagið hefði náð samkomulagi um að kaupa eftirstandandi 33% hlut í Hulu af Comcast, eignanda NBCUniversal.
Disney greiddi 8,6 milljarða dala fyrir kaupin á sínum tíma sem endurspeglaði lágmarks verðmat á streymisveitunni upp á 27,5 milljarða dala sem félögin höfðu náð saman um árið 2019, að því er segir í frétt CNBC.
Í kjölfarið hófu félögin virðismatsferli (e. appraisal process) sem upphaflega var gert ráð fyrir að myndi ljúka á árinu 2024.
Disney sagði að niðurstaða verðmats matsmanns á sínum vegum hafi verið undir ofangreindu verðgólfi en verðmat matsmanns Comcast var talsvert yfir hinu umsamda lágmarkaðsvirði streymisveitunnar. Ferlinu var lokið með aðkomu þriðja aðila.
Comcast taldi sig eiga rétt á 5 milljörðum dala umfram 8,6 milljarða dala greiðsluna árið 2023, að því er segir í umfjöllun The New York Times.