Jón Pálmason, sem hefur um langt skeið átt helmingshlut í Miklatorgi hf., rekstrarfélagi Ikea á Íslandi, á móti bróður sínum, Sigurði Gísla Pálmasyni, er orðinn eini eigandi félagsins. Þetta kemur fram í skráningu um raunverulegan eiganda Miklatorgs í fyrirtækjaskrá Skattsins en Viðskiptablaðið hefur jafnframt fengið það staðfest að Jón sé nú eini eigandi Ikea á Íslandi. Kaupverð viðskiptanna liggur ekki fyrir.

Miklatorg hafði lengi verið í eigu Eignarhaldsfélagsins Hofs ehf. Eignarhaldsfélagið Hof er svo í 50% eigu Dexter fjárfestinga ehf., félags Sigurðar Gísla, og Fari ehf., félag Jóns, á jafn stóran hlut. Miklar breytingar hafa aftur á móti átt sér stað að undanförnu á samstæðunni. Eignarhaldsfélagið Hof var móðurfélag IKEA á Íslandi og í Eystrasaltsríkjunum, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá síðasta haust seldu bræðurnir rekstur IKEA í Eystrasaltinu til Inter IKEA Group.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá síðasta haust má ætla að bræðurnir hafi fengið tugi milljarða króna í sinn hlut við sölu á rekstri Ikea í Eystrasaltsríkjunum, miðað við afkomuna af rekstrinum undanfarin ár. Um leið má ætla að um sé að ræða eina stærstu sölu á erlendu fyrirtæki í eigu Íslendinga á síðustu árum en fjárfestirinn Björgólfur Thor Björgólfsson hefur verið hvað atkvæðamestur á því sviði.

Um 57% eignarhlutur Eignarhaldsfélagsins Hofs í hollensku dótturfélagi sem hélt utan um reksturinn í Eystrasaltslöndunum, FE Corporation B.V., var bókfærður á 9,3 milljarða króna í lok rekstrarársins 2024, í ársreikningi samstæðunnar. Miðað við það var allt hlutafé félagsins metið á rúmlega 16 milljarða króna. Bræðurnir áttu 97% hlut í FE Corporation. Eins og fyrr segir áttu þeir 57% hlut í gegnum Eignarhaldsfélagið Hof. Þá átti hvor fyrir sig 20% hlut í hollenska félaginu í gegnum fyrrnefnd fjárfestingarfélög, Dexter Fjárfestingar og Fari.

Í ársreikningi Hofs eignarhaldsfélags fyrir rekstrarárið 2023 kom fram að 76% rekstrartekna félagsins á tímabilinu hefðu komið frá Eystrasaltslöndunum og 24% frá Íslandi. Rekstrarárið á undan komu 72% af rekstrartekjum frá Eystrasaltslöndunum og 28% frá Íslandi.

Félagið velti tæplega 62 milljörðum rekstrarárið 2023 og því nam hlutdeild Eystrasaltsstarfseminnar tæplega 47 milljörðum króna 2023. Rekstrarárið á undan nam heildarvelta 48 milljörðum króna en þar af nam hlutdeild Eystrasaltsstarfseminnar tæplega 35 milljörðum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.