Þótt fleiri og stærri fyrirtæki hafi nýverið látið sjá sig á First North má þar þó enn finna lítil félög með lítið flot, eins og kallað er, sem getur haft töluverðar afleiðingar á skilvirkni verðmyndunar með viðkomandi hlutabréf.

Eitt slíkt félag er tölvuleikjaframleiðandinn Solid Clouds, sem fór á markað sumarið 2021 með frumútboði og safnaði hátt í milljarði króna eftir fjórfalda eftirspurn frá alls 2.700 áskrifendum.

Viðskipti með bréf þess hafa allar götur síðan verið heldur stopul, og á fyrsta degi þessa mánaðar – þegar gangvirði þeirra var skráð 7 krónur á hlut – áttu sér stað viðskipti fyrir aðeins 27 þúsund krónur á genginu 5 krónur á hlut, sem felldi því markaðsgengið eins og það er skilgreint um tæp 30% í einni svipan.

Þegar blaðamaður fletti upp útistandandi kaup- og sölutilboðum í bréf félagsins stuttu seinna var aðeins eitt kauptilboð að finna, á genginu 0,1 króna á hlut, eða 98% lægra en 5 króna gengið sem þegar hafði skilað 29% lækkun í viðskiptum dagsins. Nokkru seinna þann sama dag fóru svo fram tvenn viðskipti til viðbótar upp á alls 33 þúsund krónur á genginu 6,98 svo dagslækkunin féll 100-falt niður í 0,3%.

Viðskiptavakt eða dreifðara eignarhald helstu meðölin

„Þetta getur auðvitað gerst í einstaka tilfellum,“ segir Magnús Harðarson, forstóri Kauphallarinnar, um slík dæmi. Almennt séu tvær leiðir fyrir félög í þessari stöðu til að bæta úr vandanum og styðja við virka verðmyndun.

„Viðskiptavakt er auðvitað þekkt og öflugt tæki í þessum efnum. Hitt væri að koma bréfum félagsins í meiri dreifingu þannig að það séu almennt útistandandi tilboð ekki aðeins frá viðskiptavaktinni, ef henni er að skipta, heldur frá alls kyns öðrum fjárfestum.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á miðvikudag.