Ákveðið hefur verið að sameina dótturfélög Samherja hf., Útgerðarfélag Akureyringa ehf. og Samherja Íslandi ehf., í eina kennitölu.

Útgerðarfélag Akureyringa hefur verið rekið sem sérstakt félag innan Samherja um langt árabil. Það rekur einnig fiskvinnslu á Dalvík og gerir út þrjú ísfiskskip, frystitogara og tvö uppsjávarskip.

Í tilkynningu frá Samherja segir að samruninn sé fyrst og fremst til hagræðingar.

„Útgerðarfélag Akureyringa verður að sjálfsögðu áfram til, þótt félagið sameinist systurfélaginu Samherja Íslandi ehf. Landvinnslan á Akureyri mun áfram heita landvinnsla Útgerðarfélags Akureyringa,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.