Félag Baldurs Tuma Baldurssonar, húðlæknis og eins meðstofnenda Kerecis, greiddi 193 milljónir króna í tekjuskatt árið 2023. Miðað við útreikninga Viðskiptablaðsins, út frá upplýsingum í álagningarskrá lögaðila hjá Skattsinum, myndi hagnaður félagsins því nema 320 milljónum króna. Var það upphæðin sem greint var frá í umfjöllun blaðsins á dögunum.

Ólíkt flestum öðrum samlags- og sameignarfélögum landsins hefur Benjar slf., umrætt félag Baldurs, aftur á móti skilað ársreikningi og þar kemur fram að hagnaður ársins hafi numið 679 milljónum króna. Takmarkaðar skýringar koma þó fram í ársreikningnum þar sem um svokallaðan hnapp er að ræða.

Taka skal fram að í úttekt Viðskiptablaðsins er ekki tekið tillit til yfirfæranlegs taps frá fyrri árum – sem draga má frá skattstofni – né lægra skatthlutfalli tekna af arðgreiðslum, enda liggja upplýsingar um slíkt ekki fyrir í álagningarskrá Skattsins.

Úttekt Viðskiptablaðsins nær í heild til 400 afkomuhæstu samlags- og sameignarfélaganna í fyrra, byggt á álögðum tekjuskatti og tryggingagjaldi samkvæmt álagningarskrá lögaðila sem Skatturinn birtir.

Félög lækna eru áberandi á listanum en í heild nemur hagnaður þeirra 150 félaga sem fram koma á listanum tæplega 4,1 milljarði króna og námu launagreiðslur tæplega 2,2 milljörðum.

Röntgen sf., félag í eigu röntgenlæknisins Magnúsar Baldvinssonar, var með næst mesta hagnaðinn á eftir félagi Baldurs eða sem nemur 110 milljónum. Vitros slf., í eigu augnlæknisins Óskars Jónssonar, hagnaðist um 80 milljónir. IceMed á Íslandi, sem er í eigu lýtalæknisins Ottó Guðjónssonar og var í efsta sæti listans í fyrra, hagnaðist um 68 milljónir.

Úttektin sem birtist í Viðskiptablaðinu á miðvikudaginn nær til 400 félaga í níu flokkum. Áskrifendur geta nálgast listana í heild hér.