Útflutningur Tyrkland til Rússlands á síðustu þremur mánuðum jókst um helming frá sama tímabili í fyrra en tyrknesk stjórnvöld hafa leyft fyrirtækjum sínum að fylla í skarðið sem vestræn fyrirtæki hafa skilið eftir í Rússlandi eftir innrásina í Úkraínu. Financial Times greinir frá.
Frá maí til júní nam heildarvirði útflutnings Tyrkja til Rússlands 2,04 milljörðum dala, sem er um 642 milljónum dala eða um 89 milljörðum króna meira en á sama tíma í fyrra.
Í júlímánuði jókst útflutningurinn um 313 milljónir dala, eða um 43 milljarða króna, frá fyrra ári og nam 730 milljónum dala. Hlutfall Rússlands af heildarútflutningi Tyrkja í júlí hækkaði úr 2,6% í 3,9% á milli ára.
Tölur frá hagsmunasamtökum tyrkneskra útflytjenda gefa til kynna að kemísk efni, ávextir, grænmeti og önnur matvæli ásamt vefnaðarvörum, raftækjum og húsgögnum liggi að baki auknum útflutningi til Rússlands.
Útflutningur Tyrkja til Rússlands dróst saman í byrjun stríðsins en hefur síðan aukist aftur. Í umfjöllun FT er bent á að virði útflutnings Tyrkja til Rússlands sé lítið í samanburði við innflutning Tyrkja frá Rússlandi, sem má einkum rekja til orkuviðskipta.
Líran, gjaldmiðill Tyrklands, hefur veikst um fjórðung gagnvart Bandaríkjadalnum í ár, ekki síst vegna lauss taumhalds peningastefnu tyrkneska seðlabankans. Veik líra hefur ýtt undir útflutning sem jókst um 13% í júlí samanborið við júlí 2021. Mesta aukningin var þó til Rússlands.