Varlega áætlað þá eydu erlendir ferðamenn sem sem sóttu Fanfest hátíð CCP um síðustu helg yfir 400 milljónum í ferðalag sitt til Íslands og dvöl sína hérlendis, samkvæmt upplýsingum frá CCP.

Alls voru erlendir gestir á Fanfest hátíðinni 1.907 talsins. Meðallengd dvalar gesta hátíðarinnar árið 2012 voru um 5 sólahringar samkvæmt könnun CCP þar sem hátíðargestir voru spurðir með tölvupósti. Dagskráin í ár hófst degi fyrr og því má gera ráð fyrir að dvöl gesta hafi nú verið lengri, þó það sé ekki gert í þessum útreikningi.

Varðandi útgjöld hvers gests er miðað við könnun Íslandsstofu og Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar á meðal erlendra gesta á Iceland Airwaves 2011. Hátíðirnar eru um margt sambærilegar, þótt gestir á Airwaves séu að öllum líkindum yngri. Miðað við þessa könnun eru útgjöld hvers gests um 24.783 krónur á sólarhring, og við það bætast svo aðgöngumiði á hátíðina og kostnaður við flugferðir til landsins.

Eyðsla þessara 1.907 gesta á dag nam samtals 236,3 milljónum króna, kostnaður við flugferðir nam 124 milljónum og kostnaður við miðaverð nam alls 27,3 milljónum króna, en athuga ber að 1.602 gestir keyptu miða, en aðrir fengu frímiða. Samtals nemur þessi eyðsla hátíðargesta 387,5 milljónum króna, en líklega var hún meiri í raun. Margir taka maka og fjölskyldur með til Íslands, en CCP hefur ekki upplýsingar um hve mikill fjöldi þetta er, fyrir utan þá 75 maka sem skráðir voru í sérstaka dagskrá fyrir þá, en hún kostar 29.330 krónur. Með því að bæta þessum 75 mökum við tölurnar fer heildareyðslan í 403,9 milljónir.

Taka ber fram að hér eru ekki teknar með í reikninginn ferðir út á land, verðþróun frá árinu 2011 þegar Airwaves könnunin var gerð eða aðrir makar og fjölskyldumeðlimir en áðurnefndir 75. Þá nam kostnaður gesta vegna skipulagðra ferða í gegnum Fanfest bókunarkerfið 7,4 milljónum króna til viðbótar.