Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að lækka stýrivexti í morgun í fyrsta sinn síðan í nóvember 2020.
Að mati Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka, kom ákvörðun nefndarinnar nokkuð á óvart en hún var á skjön við spár bankanna.
Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að vextir verði lækkaðir aftur í nóvember en það mun ráðast af verðbólgu- og efnahagsþróun hvort aftur verður stigið 0,25 prósentuskref eða stærra.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að lækka stýrivexti í morgun í fyrsta sinn síðan í nóvember 2020.
Að mati Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka, kom ákvörðun nefndarinnar nokkuð á óvart en hún var á skjön við spár bankanna.
Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að vextir verði lækkaðir aftur í nóvember en það mun ráðast af verðbólgu- og efnahagsþróun hvort aftur verður stigið 0,25 prósentuskref eða stærra.
„Við spáðum því að þrátt fyrir óbreytta vexti yrði því gefið undir fótinn að vaxtalækkunarferlið væri í startholunum. Þegar við spáðum óbreyttum vöxtum horfðum við ekki síst til þess hversu harður tónn var sleginn af nefndinni í ágúst, þar sem möguleikinn á vaxtalækkun var ekki ræddur yfir höfuð. Ákvörðunin er þó að okkar mati studd gildum rökum og tímabært að hefja lækkun vaxta,“ skrifar Jón Bjarki á vef Íslandsbanka.
Á markaði voru skiptar skoðanir á því hvort vextir yrðu lækkaðir eða óbreyttir en vaxtaferlar skuldabréfa síðustu daga endurspegluðu talsverðar líkur á því að vextir yrðu lækkaðir að þessu sinni.
Að mati Jóns Bjarka var tónninn í yfirlýsingu peningastefnunefndar fremur varfærinn og bendir til þess að frekar verði farið hægt í sakirnar næsta kastið og raunvöxtum haldið fremur háum.
„Spurningu um hæfilegt aðhaldsstig svöruðu stjórnendur bankans með því að nefndin væri ánægð með núverandi aðhaldsstig. Nægilegt aðhald væri til að ná verðbólgunni í markmið innan ásættanlegs tíma. Með 25 punkta lækkunarskrefi væri verið að fara af stað af varkárni í vaxtalækkunarferli og ef bakslag yrði í hjöðnun verðbólgu og/eða kólnun hagkerfisins myndi það ferli stöðvast. Þótt sú leið hefði einnig verið möguleg að bíða eftir ótvíræðari merkjum að þessu leyti hefði nefndin talið farsælla að byrja með smáu skrefi. Undir það getum við tekið,“ skrifar Jón Bjarki.
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, sagði á blaðamannafundinum í dag að ekki hefði endilega mikið breyst frá því að allharður tónn var sleginn við ágústákvörðun peningastefnunefndar.
Ásgeir var því ósammála og taldi talsverðar breytingar hafa orðið á tímabilinu. Þá kom fram í máli þeirra Ásgeirs og Rannveigar að nefndarmenn horfðu með mismunandi hætti á hina ýmsu áhrifaþætti og gæfu þeim mismikið vægi við ákvörðun nefndarinnar.
„Við teljum okkur greina af þessu að skoðanir hafi verið skiptar innan peningastefnunefndar um ákvörðunina að þessu sinni. Kæmi okkur ekki á óvart að það myndi koma á daginn að einhverjir nefndarmanna hafi lagst gegn lækkun vaxta að þessu sinni, en það skýrist þegar fundargerð vaxtaákvörðunarfundanna nú verður birt að tveimur vikum liðnum,“ skrifar Jón Bjarki
„Vaxtalækkunarferli er hafið en peningastefnunefndin mun vilja stýra lækkunartaktinum næsta kastið með þeim hætti að raunvextir lækki ekki verulega. Það er því útlit fyrir að stýrivextir verði lækkaðir aftur í nóvember en það mun að okkar mati ráðast af verðbólgu- og efnahagsþróun hvort aftur verður stigið 0,25 prósentuskref eða stærra skref tekið,“ skrifar Jón Bjarki.