Hringiða er viðskiptahraðall í umsjón Icelandic Startups sem ætlað er að draga fram, efla og styðja nýja tækni og aðferðir sem leysa aðsteðjandi úrlausnarefni í umhverfismálum þannig að þátttakendur verði í stakk búnir til að kynna verkefni sín fyrir fjárfestum og sækja styrki í Evrópusjóði. Hraðallinn var haldinn í fyrsta sinn fyrr á þessu ári og stefnt er að því að endurtaka leikinn.
„Á þessum 10 vikum eiga þátttakendur að öðlast grundvallarþekkingu í öllu því sem tengist rekstri sprotafyrirtækja, svo sem gerð viðskiptaáætlana, markaðssetningu, fjármálum og ýmsu fleira. Í gegnum hraðalinn hitta þátttakendur auk þess fjölda sérfræðinga úr atvinnulífinu sem veita þeim þá endurgjöf sem þarf til þess að þeir geti stigið á svið á fjárfestadeginum undir lok hraðalsins og sannfært fjárfesta um að taka þátt,“ segir Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, og bætir við: „Sumir líkja hraðlinum við nokkurs konar mini-MBA nám og er sá samanburður ekki alveg út í bláinn.“
Að sögn Kristínar kviknaði hugmyndin út frá því að Ísland væri ekki að uppfylla skuldbindingar sínar í umhverfismálum. Þau telji lausnina felast í sjálfbæru hagkerfi. „Ég er mikil áhugakona um hringrásarhagkerfið og mér þykir það mjög fangandi konsept, hvernig við getum fært okkur úr línulegu hagkerfi yfir í hringrásarhagkerfi og getum þannig mætt væntingum okkar og óskum um lífsstíl en á sama tíma skapað störf, aukið hagvöxt og dregið verulega úr umhverfisáhrifum okkar.“
Öflugur hópur fólks kom að hraðlinum, sem skapaði vettvang þar sem nýsköpun, fjölbreytt þekking og reynsla mættust. „Þetta voru ekki bara bakhjarlar sem koma inn með undirskrift og fjármagn, heldur stigu inn með sitt besta fólk, mikla þekkingu og settu metnað í verkefnið, sem er ómetanlegt,“ segir hún og bætir við að stýrihópur Hringiðu hafi verið skipaður 20 sérfræðingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Orkuveitu Reykjavíkur, Faxaflóahöfnum, Terra, Sorpu, Hvalfjarðarsveit og Þróunarfélögunum á Breið og Grundartanga. „Þannig að þetta varð í raun stór hugveita fyrirtækja og stofnana sem starfa innan hringrásarhagkerfisins.“
Ísland sé frumkvöðlaland
Hún segir Ísland að mörgu leyti mikið frumkvöðlaland, þar sem ákveðinn hluti þjóðarinnar sé tilbúinn að taka stökkið. „Þar sem fókusinn er á hverjum tíma, þar sem stjórnvöld setja fókusinn og þangað sem peningarnir leita, þar munum við sjá fyrirtæki spretta upp, og okkur þótti tímabært að setja enn sterkari fókus á þau tækifæri sem eru vannýtt í umhverfismálum.“
Í hennar huga er hvert einasta óleysta umhverfismál vannýtt tækifæri og bendir hún á að hér á Íslandi séum við vel í stakk búin til að leysa þau fyrir tilstilli orkuauðlinda okkar. „Til dæmis liggja vannýtt tækifæri í efnisendurvinnslu, rafeldsneytisframleiðslu og geymslu á orku, og þarna liggja tækifæri í mikilli nýsköpun. Hringiðu var ætlað að draga fram þær hugmyndir og þau fyrirtæki sem vinna á grunni hringrásarhagkerfisins og efla þau, hraða vexti þeirra og hreinlega draga þau fram í dagsljósið,“ segir hún.
Það sé sorglegt að hugsa til þess að flestar tæknilausnir sem þurfi til að draga verulega úr losun séu til staðar en það vanti upp á að þær séu nýttar. „Þær eru oftast dýrari í innkaupum, en við megum ekki gleyma að horfa á kostnað heildarvirðiskeðjunnar. Ef við einblínum alltaf á hráan neytendakostnað á endavörunni sjáum við ekki heildarmyndina. Þegar allt er tekið saman verður kostnaðurinn meiri af því að nýta ekki umhverfisvænar lausnir. Það vantar meiri stuðning í umhverfinu, bæði fjármagn og viðskiptavini. Þarna geta stjórnvöld komið sterkari inn og ekki bara með fjármagn, heldur með því að skerpa á regluverki og skylda okkur inn í umhverfisvænni lifnaðarhætti.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .