Samtök iðnaðarins hafa ítrekað varað við yfirvofandi skorti á raforku en en þegar eigi að virkja þá sé ferlið og regluverkið flókið og þunglamalegt. Sem dæmi sé auðvelt að tefja framkvæmdir í langan tíma með kærum.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að undanfarnar vikur hafi starfsfólk Samtakanna farið um landið og átt samtöl við fólk, bæði atvinnurekendur og sveitarstjórnarfólk.

„Það er mjög áberandi að það býr mikill kraftur í fólki hringinn í kringum í landið,“ segir Sigurður. „Það eru margir atvinnurekendur sem vilja auka framleiðslu því þeir sjá tækifæri til að skapa aukið virði hér heima eða á erlendum mörkuðum. Síðan eru aðrir sem vilja byggja upp fyrirtæki frá grunni en það er mjög margt sem strandar á því að það vantar rafmagn og ef það er til þá er flutningskerfið vandamál. Við fáum líka að heyra það víða um land að það skorti heitt vatn.“

Fagnar skýrum skilaboðum ráðherra

Sigurður segir einsýnt að breyta þurfi ferlinu til einföldunar í kringum þessi mál. Hann fagnar því að Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hafi sent skýr skilaboð í þessa veru.

„Hann kemur inn í ráðuneytið með mikinn metnað og hefur þegar látið til sín taka með því að koma málum í þingið, sem greiða meðal annars fyrir uppbyggingu Hvammsvirkjunar. Hann og ríkisstjórnin hafa talað mjög skýrt um að þau vilji uppbyggingu og við fögnum því mjög. Það sem ég hef tekið sérstaklega eftir er að ráðherrann hefur talað um virkjun raforku í þágu verðmætasköpunar. Þetta er tónn sem við höfum ekki heyrt mjög lengi.

Staða orkumála undanfarin ár hefur verið algjörlega heimatilbúinn vandi og þess vegna eru þessi skref sem ríkisstjórnin er að taka núna afar jákvæð. Þetta skiptir samfélagið nefnilega gríðarlega miklu máli. Undanfarin ár höfum við verið að missa af tækifærum til atvinnuuppbyggingar vegna þess að það hefur vantað raforku og ferli leyfisveitinga hefur verð alltof langt og flókið.

Hringinn í kringum landið sjáum við dæmi um það hvað atvinnuuppbygging hefur skapað mikinn ávinning fyrir íslenskt efnahagslíf og viðkomandi samfélög. Við vitum alveg hvað uppbygging álversins í Straumsvík á sínum tíma hafði mikil áhrif á efnahag landsins og atvinnulíf. Sömu sögu má segja um uppbygginguna á Grundartanga, sem og uppbygginguna sem hefur orðið í tengslum við gagnaverin á Reykjanesi, Blönduósi og Akureyri, álverið á Reyðarfirði, uppbyggingu Kerecis og laxeldis á Vestfjörðum og uppbygginguna sem nú er í gangi í Ölfusi.“

Heimatilbúinn vandi

Gullhúðun er það þegar ríki ganga lengra við innleiðingu tilskipana en kröfur EES-gerða segja til um. Ákvæðin eru gerð enn meira íþyngjandi en tilskipanirnar kveða á um.

„Þetta er annað dæmi um heimatilbúinn vanda. Það sem kemur að utan og við innleiðum á grundvelli EES-samningsins eru lágmarkskröfur, sem ríki þurfa að uppfylla til að tryggja aðgang að innri markaðnum. Í mörgum tilvikum ákveða stjórnvöld að ganga lengra en þarf. Við höfum séð fjölmörg dæmi um þetta eins og til dæmis í tengslum við persónuverndarlöggjöfina, fjarskiptalög og lög um meðhöndlun úrgangs. SI hafa í öllum tilfellum bent á þetta við meðferð málanna á Alþingi án árangurs. Annað dæmi er að í kröfum er varða sjálfbærni þá eru þær látnar ná yfir minni fyrirtæki hér heima en erlendis. Það gefur augaleið að þetta er hlutfallslega mjög kostnaðarsamt fyrir lítil fyrirtæki og með þessu skerðum við samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum.“

Byggingarreglugerð sett á ís

Í fjölda ára hefur verið rætt um að einfalda byggingarreglugerðina til þess að flýta fyrir byggingu húsa.

„Fyrri ríkisstjórn setti af stað heildarendurskoðun á reglugerðinni. Það var búið að skipuleggja þá vinnu og hún var komin af stað. Vinna við alla kaflana var hafin og margar góðar hugmyndir komnar á blað þó að það eina sem varð að veruleika var til þess fallið að flækja ferlið. Þegar uppstokkun varð á ríkisstjórninni og Svandís Svavarsdóttir varð innviðaráðherra þá var þessi vinna sett á ís. Nú bíður þetta verkefni nýrrar ríkisstjórnar við hvetjum hana til þess að gera það og þá með sérstakri áherslu á að einfalda reglugerðina.

Þegar þessi reglugerð kom út fyrir 13-14 árum þá talaði þáverandi ráðherra, Svandís Svavarsdóttir, um að þetta væri framsæknasta byggingarreglugerð í Evrópu. Nú er kannski kominn tími á að vera með einföldustu byggingarreglugerð í Evrópu.“

Sigurður segir að með því að einfalda reglugerðina megi draga mikið úr byggingakostnaði, en eftir stendur að ráðast í endurskoðun á skipulagsmálunum og þar er mikið verk að vinna.

„Í stuttu máli er þetta þannig að núverandi reglugerð er með forskrift að því hvernig gera eigi hlutina. Það þýðir að ríkið hefur tekið að sér að segja markaðnum nákvæmlega hvernig eigi að gera hlutina; dyrabjalla á að vera í þessari hæð, bréfalúgan á að vera í ákveðinni hæð og þar fram eftir götunum.

Þetta er gert í stað þess að leyfa markaðnum að finna bestu lausnirnar með einhver markmið að leiðarljósi eins og til dæmis markmið um aðgengi, loftgæði og öryggi. Það er sjálfsagt að eftirlit sé með því að markmiðunum sé náð, sérstaklega varðandi gæði, en markaðurinn á að fá svigrúm til að finna bestu lausnirnar. Ef reglugerðin yrði einfölduð myndi það leysa ákveðna krafta úr læðingi því í dag er staðan sú að markaðurinn má ekki hafa skoðun á því hvernig gera eigi hlutina, nema upp að vissu marki.“

Nánar er rætt við Sigurð í sérblaðinu Iðnþing 2025. Áskrifendur geta lesið í viðtalið í heild hér.