Hagfræðideild Landsbankans telur varasamt að byggja mikið nýtt framboð af íbúðum þar sem eftirspurnin geti breyst skyndilega. Í hagsjá bankans segir að eftirspurnin hafi aukist, m.a. vegna vaxtalækkana, en þýði þó ekki að þörfin á íbúðarhúsnæði hafi aukist.

Miðað við sambærilega mannfjöldaþróun og hefur verið á undanförnum árum, þ.e. um 4.300 einstaklingar á ári, þurfa um 1.700 íbúðir að komast á það byggingarstig að verða fokheldar á ári hverju til þess að mæta þörf. Á síðustu tveimur árum hafa yfir 3.000 íbúðir komist á það stig á ári hverju.

„Við sjáum ekki merki um mikla uppsafnaða þörf fyrir nýjar íbúðir um þessar mundir þó íbúðasala sé mikil og verð hækki. Það er vegna þess að eftirspurn, sem er ekki það sama og þörf, hefur aukist mikið m.a. vegna vaxtalækkana.“ segir í hagsjánni.

Fram kemur að einungis þrisvar áður hafi það gerst frá aldamótum að fjölda fokheldra íbúða sem fer á markað hafi verið yfir 3.000 talsins en það var á árunum 2006-2008. „Það var mat margra að þá hefði of mikið verið fjárfest í íbúðarhúsnæði og var sáralítið byggt á árunum sem á eftir fylgdu.“

Fjöldi íbúa á sérhverja íbúð - Hagsjá
Fjöldi íbúa á sérhverja íbúð - Hagsjá
Hagfræðideildin segir mikilvægt að sagan endurtaki seig ekki og því þurfi að horfa til fjölda íbúa á hverja íbúð. Á síðustu tveimur árum hefur fjölda íbúa á hverja íbúð fækkað sem Hagfræðideildin rekur til þess að fjölgun íbúða hafi verið hraðri en mannfjöldaaukning að undanförnu. „Þetta mætti túlka sem svo að íbúðaþörf hafi dregist saman á síðustu árum.“

Þetta sé raunin þrátt fyrir að íbúðir seljast hraðar en áður og verð hækkar. Ástæðan fyrir því stafi af vaxtalækkunum, auknum sparnaði og mögulega skorti á öðrum fjárfestingarkostum sem drífur fasteignaverð áfram. Hagfræðideildin telur að eftirspurnin eftir íbúðarhúsnæði getur allt eins horfið jafn fljótt og hún birtist ef aðstæður breytast eða aðrir fjárfestingakostir verða ákjósanlegri fyrir einstaklinga.

Sjá einnig: Metvelta á fasteignamarkaðnum

„Það er varasamt að byggja mikið nýtt framboð inn í slíka eftirspurn þar sem hún gæti breyst á einni nóttu þegar faraldrinum linnir. Skynsamlegast væri að horfa í gegnum skammtímasveiflur sem verða á eftirspurn vegna utanaðkomandi þátta og byggja í takt við langtímaþörf sem ræðst af mannfjölda.“