Seðlabankinn gæti veitt innlánsstofnunum veðlán með lægri vaxtakjörum ef þær auka útlán til fyrirtækja, lækkað stýrivexti sína og haldið áfram að beita gjaldeyrisinngripum. Þetta er meðal þess sem Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, sagði á fundi með félagsmönnum Félags atvinnurekenda.

Sagði hún að bankinn sé með stóran gjaldeyrisforða og muni beita inngripum til að draga úr óhóflegum sveiflum og styðja við gengið. Enn fremur muni bankinn „koma inn á markaðinn fyrir ríkisskuldabréf, í samræmi við þróun framboðs ríkisbréfa og ávöxtunarkröfu á markaði.“

Önnur leið sem væri möguleg væri svokölluð framsýn leiðsögn, þar sem Seðlabankinn lýsti því yfir að hann myndi ekki hækka vexti fyrr en eftir tiltekinn tíma eða við önnur viðmið, til dæmis ákveðið atvinnuleysi. Slíkt hefði reynst vel erlendis þar sem vextir væru mjög lágir eða jafnvel neikvæðir.

Veðlán með útlánahvata leið til að tryggja miðlun peningastefnunnar

„Einfaldasta leiðin er líklega sú að taka upp sérstök veðlán til lánastofnana með einhverjum útlánahvata á lánum til fyrirtækja,“ sagði Rannveig aðspurð hvernig Seðlabankinn hyggst beita sér til að þrýsta niður vöxtum á fyrirtækjalánum. Enn fremur sagði hún að ýmislegt benti til þess að vaxtaálag fyrirtækja væri búið að ná hámarki.

Með veðláni sem býr yfir útlánahvata myndu lánastofnanir fá lán frá Seðlabankanum með hagstæðari vöxtum en ella, gegn því skilyrði að þær lánuðu til fyrirtækja.

„En samkvæmt þeim upplýsingum sem við fáum frá bönkunum núna er ljóst að eftirspurn er ekki mikil eins og er. Þegar fer að draga úr óvissunni gæti verið lag á að koma inn og reyna að styðja á einhvern hátt við útlánavöxt til fyrirtækja,“ sagði Rannveig.

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið að Seðlabankinn „hafi séð lækkun vaxta skila sér mjög vel til heimilanna en ekki nægjanlega vel til fyrirtækja. Sú staða er eitthvað sem ber að skoða, bæði í skammtíma og langtíma samhengi. Við þurfum að tryggja greiða miðlun peningastefnunnar.“

Mætti álykta að áðurnefnd aðgerð sé ein af þeim sem bankinn búi yfir til þess að tryggja betri miðlun peningastefnunnar, hvað vaxtakjör fyrirtækjalána varðar.