Greining Íslandsbanka spáir því að 12 mánaða taktur verðbólgu hjaðni úr 4,3% í 4,0% í apríl . Vísitala neysluverðs hækki þá um 0,2% á milli mánaða og skýrist hækkunin einkum af hækkun húsnæðisverðs og verði matvara. Út árið séu verðbólguhorfur þó allgóðar og líklega verði verðbólga komin niður fyrir 2,5% markmið Seðlabankans í byrjun næsta árs.

Gangi spá Greiningar eftir muni verðbólga hjaðna jafnt og þétt eftir því sem líður á árið. Næstu tvö ár séu svo horfur á að verðbólga verði í grennd við verðbólgumarkmið.

Ein helsta forsenda þess að spáin gangi eftir sé styrking krónunnar á komandi fjórðungum. Undanfarna mánuði hafi krónan haldið sjó og gert sé ráð fyrir styrkingu síðar á árinu þegar ferðamannagjaldeyrir byrji vonandi að streyma inn til landsins á nýjan leik. Frekari styrking verði síðan á næstu árum með bjartari tíð í hagkerfinu.