Verðbólgan mældist 7,6% hér á landi í október á mælikvarða samræmdrar vísitölu neysluverðs og var það nokkuð minni verðbólga en í mánuðinum á undan þegar hún mældist 8,5%. Síðast var verðbólgan hér á landi lægri í júlí síðastliðnum en horft framhjá þeim mánuði þarf að fara aftur til desember á síðasta ári til þess að finna lægri verðbólgu.

Verðbólga í Evrópu einna hæst hér á landi

Þrátt fyrir hjöðnun verðbólgu milli október og september er verðbólga hér á landi enn með því hæsta í Evrópu. Það eru einungis fyrrum austantjaldsþjóðir sem eru með hærri verðbólgu en Ísland. Þær 12 þjóðir sem voru með hæstu verðbólguna í október voru allt fyrrum austantjaldsþjóðir fyrir utan Tyrkland og Ísland. Austurríki er sú Vestur-Evrópuþjóð sem er með hæstu verðbólguna fyrir utan Ísland en verðbólgan þar var 4,9%.

Verðbólga minnkaði í flestum Evrópulöndum

Langflest löndin í Evrópu sáu verðbólguna minnka milli september og október. Það voru einungis Tékkland, Eistland, Grikkland, Noregur, Svíþjóð og Spánn sem sáu verðbólguna aukast milli mánaða. Í flestum þessara landa var verðbólgan þá lág fyrir.

Helsti munurinn á samræmdri vísitölu neysluverðs og þeirri vísitölu sem stuðst er við þegar rætt er um verðbólgu hér á landi er að útgjöld til eigin húsnæðiskostnaðar er sleppt í samræmdu vísitölunni. Aukinn vaxtakostnaður heimila vegna hækkandi húsnæðislánavaxta kemur því ekki fram í samræmdu vísitölunni líkt og hann gerir í vísitölu neysluverðs en hækkandi húsnæðislánavextir skýra umtalsverðan hluta af þeirri verðbólgu sem mælist hér á landi.