Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og innviðaráðherra, er þeirrar skoðunar að eðlilegt sé fyrir ríkið að leggja af stað í vinnu við að kanna rannsaka frekar fýsileika jarðganga til Vestmannaeyja.

„Ég held að það væri ábyrgðarhluti fyrir nýja ríkisstjórn að horfa ekki til þess vegna þess hve ávinningurinn er mikill,“ sagði Sigurður Ingi á kynningu um skýrslu starfshóps sem hann skipaði í mars 2023‏ um þetta málefni.

„Ávinningurinn er þvílíkur að það væri ábyrgðarhluti að gera ekkert meir. Í mínum huga get ég bara svarað því að mér finnst eðlilegt að við erum nú á þeim stað að það er ný ríkisstjórn væntanleg eftir næstu kosningar. Þetta er verkefni sem slík ríkisstjórn þarf að taka.“

Hópurinn lagði til þrepaskipta rannsókn til að kanna fýsileika jarðganganna. Sigurður Ingi áréttaði að sú vinna, sem hann sagðist sjálfur hlynntur að hefja, gæti svarað spurningum um fýsileika framkvæmdanna á neikvæðan eða jákvæðan hátt.

Starfshópurinn lagði til þrepaskipta rannsókn á jarðlögum á gangaleið.

Yrði líklega farin Hvalfjarðarganga-leiðina

Jarðgöng til Vestmannaeyja eru ekki inni í jarðgangaáætlun, sem er hluti af samgönguáætlun. Fyrir vikið eru þau ekki búin að fara í gegnum þá sömu skoðun sem að þau verkefni sem þar eru, að sögn Sigurðar Inga.

„Þetta verkefni […] getur auðvitað staðið sjálfstætt. Þetta getur verið verkefni sem er þá samvinnuverkefni, getur verið í anda þess sem við þekkjum úr Hvalfjarðargöngunum og erum að endurvekja m.a. með verkefninu í kringum Ölfusárbrú og verður klárlega eins og Sundabraut verður.

Þessi aðferð, þessi leið, er að verða okkur eðlilegri heldur en hún var fyrir nokkrum árum og við kannski betri í að undirbúa hana.“

Úr kynningu starfshópsins.

Kostnaðurinn allt að 200 milljarðar

Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen, sem nú heitir Verkís, lauk kostnaðarmati á gerð jarðganga sem vegtengingu milli Vestmannaeyja og Landeyja árið 2007. Niðurstaða matsins var sú að tæknilega væri mögulegt að gera slík göng og að kostnaðurinn yrði líklega á bilinu 50-80 milljarðar króna eftir gerð ganganna „en áhætta er talin mikil“.

Núvirt er kostnaðurinn áætlaður á bilinu 125-200 milljarðar króna, samkvæmt Birni Ágúst Björnssyni, sem sat í hópnum.

„Við í starfshópnum sjáum bara það að til þess að uppfæra þetta mat sem þarna lág fyrir þá þarf að gera rannsókn á jarðlögum.“

Starfshópurinn stillti upp meðfylgjandi sviðsmynd yfir rekstur Vestmannaeyjaganga.
Sigurður Ingi ásamt fulltrúum starfshópsins. Frá vinstri: Sigurður Ingi, Gylfi Sigfússon, Kristín Jónsdóttir (formaður), Freyr Pálsson og Björn Ágúst Björnsson. Á myndina vantar Freystein Sigmundsson og Anton Kára Halldórsson.
© Aðsend mynd (AÐSEND)