Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins, segir það vera mögulegt brot gegn stjórnarskrá og Mannréttindasáttmálanum að meirihluti launafólks á Íslandi geti ekki valið sér lífeyrissjóð. Í grein í nýrri Lífeyrisbók Arion banka segir hann val um lífeyrissjóð vera eina af mikilvægustu ákvörðunum í lífi fólks.

Samkvæmt lögum fer aðild að lífeyrissjóði eftir kjarasamningum og vill Arnaldur sjá breytingu á því. Fólk eigi að geta valið sér lífeyrissjóð og segir hann að núgildandi lög ættu aðeins að eiga við þá sem kjósa ekki að velja sér sjóð.

Arnaldur segir að það ríki sátt um skyldu starfandi einstakling til að greiða í lífeyrissjóð en það sama gildi ekki um skylduaðild að tilteknum lífeyrissjóðum. Hann vitnar í grein eftir Gunnar Ásgeirsson sem birtist árið 2014 í vefriti Fjármálaeftirlitsins. Þar skrifaði Gunnar að núverandi fyrirkomulag brjóti mögulega gegn 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 11. gr. Mannréttindasáttmálans. Endanleg niðurstaða liggi hins vegar ekki fyrir í málinu.

„Ég tel miður að enn hefur ekki reynt á málið fyrir dómstólum til að fá úr því skorið hvort ákvæði laganna standist ofangreind ákvæði,“ skrifar Arnaldur.

Frumvarp liggur nú fyrir á Alþingi um að launamenn geti valið að standa utan stéttarfélaga eða gengið í þau stéttarfélög sem þeir kjósa. Arnaldur segir að verði frumvarpið samþykkt megi búast við að aukinni umræðu um aðild launafólks að lífeyrissjóðum.

„Að mínu mati er það grundvallarmál að sjóðfélagar fái að ákveða hvar þeirra lífeyrissparnaður er ávaxtaður í stað þess að starfsgrein eða stéttarfélagsaðild ráði því hvaða lífeyrissjóður verður fyrir valinu.“

Aukin samkeppni og möguleg samþjöppun

Afnám skylduaðildar myndi leiða til aukinnar samkeppni á milli lífeyrissjóða og ‏þar af leiðandi til betri þjónustu að mati Arnaldar. Sjóðirnir myndu sjálfkrafa auka framboð valkosta til að missa ekki sjóðfélaga og til að laða að n‎ýja.

Jafnframt mætti búast við að minni lífeyrissjóðir, sem hefðu ekki jafn mikla burði til að standa sig í samkeppninni, myndu sameinast í stærri sjóði „sem telja má gott fyrir lífeyriskerfið í heild“.

„Loks myndi valfrelsið auka vitund sjóðfélaga um lífeyrissparnað sinn sem ætti að leiða til þess að þeir tækju betri ákvarðanir um þá valkosti sem þeim stæðu til boða.“