Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, kallar eftir því að Alþingi tryggi sér heimild til að taka Mílu yfir ef neyðarástand skapast varðandi fjarskiptainnviði eða ef eigandinn er ekki hæfur til að sinna slíkri starfsemi.

„Við snúum víst ekki tímanum við til að leiðrétta þau afglöp sem gerð voru með sölu Símans,“ skrifar Oddný í færslu á Facebook.

Míla hefur verið mikið umræðunni vegna fyrirhugaðra kaupa franska sjóðastýringafyrirtækisins á félaginu af Símanum. Samkeppniseftirlitið (SKE) tjáði samrunaaðilum nýlega um að stofnuninn telji að viðskiptin muni raska samkeppni og verði ekki samþykktur án skilyrða/og eða frekari útskýringum. Helsta áhyggjuefni eftirlitsins lýtur að 20 ára heildsölusamningi á milli Símans og Mílu sem tekur gildi eftir að viðskiptunum lýkur.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við Markaðinn í vikunni að afstaða SKE hafi komið sér á óvart og að rök eftirlitsins verði að vera mjög sterk til að réttlæta óvissuna sem hefur nú skapast. Þá kunni málið að hafa áhrif á orðspor landsins sem fjárfestingarkost. Oddný furðar sig á ummælum Vilhjálms og vitnar m.a. í markmið samkeppnislaga.

„Sérhagsmunagæslumaðurinn Vilhjálmur Árnason hefur áhyggjur af orðspori Íslands ef ekki er farið að kröfum franska fjárfestingasjóðsins sem vill eignast Mílu og nýta sér sterka stöðu á fákeppnismarkaði,“ skrifar Oddný.

„Það verður að koma i veg fyrir að eigendur geti af geðþótta eða vegna vanhæfni lamað íslenskt samfélag, farið með fyrirtækið út fyrir lögsögu Íslands, selt úr landi nauðsynleg tæki til starfseminnar eða hagnast óeðlilega á fákeppnismarkaði á kostnað almennings,“ skrifar Oddný.

Rétt er að benda á að undirritaður var samningur á milli ríkisins og Mílu í desember sem varðaði þjóðaröryggi og í byrjun þessa árs var bætt við ákvæðum í fjarskiptalög, þar á meðal til tryggja staðsetningu á búnaði.

Oddný segir að ljósleiðarastrengirnir séu undirstaða flestra fjarskiptakerfa sem notuð eru á Íslandi. Hún bendir á að stofnljósleiðarastrengur sem liggur til landsins sé að 5/8 hluta í eigu Mílu og að 3/8 hlutum í eigu NATO. Þá sjái Míla um rekstur og viðhald allra þráðanna átta í strengnum.

„Alvarlegt sambandsrof sæstrengjanna eða ljósleiðaratengingar á landi, getur gert Ísland að mestu sambandslaust við umheiminn og haft alvarlegar afleiðingar fyrir hagsmuni íslenska ríkisins, jafnt efnahags-, öryggis-, varnar- og almannahagsmuni líkt og bent er á í skýrslu þjóðaröryggisráðs um mat á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum.“