Virgin Orbit, gervihnattarfyrirtæki Richard Branson, hefur sótt um greiðslustöðvun í Bandaríkjunum. Í tilkynningu til fjárfesta sagði Virgin Orbit að greiðslustöðvunin væri til þess fallin að auðvelda sölu á fyrirtækinu.

Fyrsta tilraun fyrirtækisins til að skjóta upp gervinhöttum í byrjun ársins misheppnaðist. Gervihnettir sjö viðskiptavina voru um borð í eldflauginni. Hlutabréfaverð Virgin Orbit tók dýfu í kjölfarið.

Fyrirtækið, sem var skráð á markað í gegnum SPAC-samruna sumarið 2021, sagði upp 675 starfsmönnum, eða um 85% af starfshópi sínum, í síðustu viku þar sem ekki tókst að tryggja nægilega fjármögnun.

Virgin Orbit segist í tilkynningu hafa tryggt sér 31,6 milljónir dala í DIP fjármögnun (e. debtor-in-possession financing), eða sem nemur 4,3 milljörðum króna, frá Virgin Investments Ltd. sem á að hjálpa félaginu að halda sér á floti á meðan leitað er að kaupanda.