Gagnaverið Verne Global, sem er staðsett í Keflavík, hefur samið við Volkswagen um að stór hluti gagnavinnslu bílaframleiðandans muni fara fram í gagnaverinu. Frá þessu er greint á vef Business Wire .

Volkswagen hefur verið að nýta sér ofurtölvur til að stytta hönnunartíma, bæta hönnun á bílum sínum og vinna að bestun í bílaumferð. Tölvuvinna sem þessi kallar ekki á mikinn gagnaflutning, en er aftur á móti orkufrek. Því þykja íslensk gagnaver heppileg í vinnu sem þessa. Þýski bílaframleiðandinn BMW hefur nýtt sér þjónustu Verne Global um nokkurra ára skeið og í sama tilgangi.

Harald Berg, einn af yfirmönnum hátæknimála hjá Volkswagen, kveðst sáttur með að geta nýtt sér tækni Verne Global til þess að bregðast við auknum kröfum til hönnunardeildarinnar á sveigjanlegan hátt.