Þetta er búið að vera ótrúlegt ævintýri,“ segir Jón Ólafssonar, stjórnarformaður og stofnandi Icelandic Water Holdings, um reksturinn undanfarna mánuði. Fyrirtækið selur íslenskt vatn undir vörumerkinu Icelandic Glacial sem tappað er á flöskur í verksmiðju þess við Hlíðarenda í Ölfusi. „Frá fyrsta maí til áramóta var vöxturinn 85% í Ameríku,“ segir Jón en vatnið er selt í 29 löndum og standa Bandaríkin undir 80% af veltunni.

Salan í janúar sé þegar orðin 100% meiri en í öllum janúar á síðasta ári þó að mánuðurinn sé ekki hálfnaður og því ekki ósennilegt að salan í janúar verði 200% meiri en fyrir ári. Jón segir að salan á síðasta ári í heild hafi aukist um í kringum 40% eða um 10 milljónir dollara, um 1,3 milljarða króna. Salan árið 2020 nam 26,7 milljónum dollara, um 3,5 milljörðum króna, en var vel á fimmta milljarð króna á síðasta ári sem var það stærsta í sögu fyrirtækisins.

Hann er vongóður um að salan á þessi ári verði að minnsta kosti 60 milljónir dollara í ár, hátt í átta milljarðar króna. Gangi það eftir verður veltan á þessu ári álíka og árin 2020 og 2021 samanlagt.

Covid reynst blessun

Fyrirtækið er því að komast á flug eftir sautján ára uppbyggingar- og kynningarstarf. „Við trúum því að þetta sé hollasta og besta vatn í heimi og við höfum kynnt það frá upphafi þannig. Nú er fólk að hugsa meira um heilsuna og Covid hefur því í raun verið blessun fyrir okkur. Enda er vöxturinn langt umfram aðra á markaðnum,“ segir Jón sem stofnaði fyrirtækið árið 2004 með Kristjáni syni sínum eftir að hafa selt sig út úr Norðurljósum sem þá var stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins.

Gangi reksturinn eins og útlit er fyrir í ár séu líkur á að fyrirtækið skili rekstrarhagnaði fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) í fyrsta sinn. Jón segir að horfa verði á afkomuna fram til þessa sem fjárfestingu í fyrirtækinu og vörumerkinu sem í felist umtalsverð verðmæti. Alls nemur fjárfestingin í félaginu hátt í 200 milljónum dollara.

Hann bendir á að fyrirtækinu hafi tekist að vaxa þrátt fyrir að staðir sem hafi að miklu leyti verið lokaðir á veirutímum hafi staðið undir um helmingi af veltunni fyrir faraldurinn, til að mynda veitingastaðir, hótel og flugvellir. Margföld netsala, til að mynda hjá Amazon, sem og söluvöxtur í verslunum, hafi bætt það upp.

Þá hafi sýnt sig að neytendur séu afar hrifnir af vatninu hjá Icelandic Glacial komist þeir á bragðið með það. „Þegar við erum með sama fjölda af flöskum og Fiji í búðum seljum við alltaf meira en þeir,“ segir Jón brattur enda er Fiji stærsta innflutta gæðavatnið  í Bandaríkjunum. Miðað við stærð Fiji eigi Icelandic Glacial nóg inni en sala Icelandic Glacial í Bandaríkjunum nemur nú um 5% af sölu Fiji.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .