Umfangsmikil uppbygging er hafin á Keflavíkurflugvelli. Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir uppbygginguna löngu tímabæra þar sem lengi hafi legið fyrir að þörf væri á að bæta afkastagetu flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. „Uppbyggingarþörfin er tvíþætt. Annars vegar snýr hún að afkastagetu í flugstöðinni sjálfri og þar er mesti flöskuhálsinn núna. Hins vegar snýr þörfin að flugbrautakerfinu sem er ekki flöskuháls í augnablikinu,“ útskýrir hann.

Ákveðið hafi verið af þessum sökum að forgangsraða uppbyggingunni á þann veg að leggja allt kapp á að auka afkastagetu flugstöðvarinnar. „Fyrir faraldur vorum við með í bígerð að fara í mjög stóra framkvæmd á tengibyggingu milli norður- og suðurhluta flugstöðvarinnar. Á sama tíma var byrjað að undirbúa svokallaðan austurvæng sem er bygging sem byggð er við flugstöðina sem snýr í átt að Reykjanesbæ, sem landgöngubrýr raðast svo utan á. Áður en hægt verður að ráðast í það þarf að búa til ákveðið mikla afkastagetu inni í miðri flugstöðinni. Þegar faraldurinn skall á settumst við hins vegar niður og skiptum þessari framkvæmd upp í tvennt til að draga úr framkvæmdaáhættu. Það stoðvirki sem þegar er risið austan við flugstöðina er fyrri hluti þeirrar framkvæmdar, sem lýkur haustið 2024. Í framhaldinu af því munum við ráðast í það að taka burtu rauðu tenginguna milli flugstöðvarbygginganna og reisa stórt mannvirki þar í miðjunni. Það mun væntanlega ekki komast í notkun fyrr en árið 2028,“ segir Sveinbjörn. Til að setja þessa miklu uppbyggingu í samhengi sé áætlað byggingarmagn á árunum 2021-2028 á borð við eina Smáralind.

Yfir 100 milljarða fjárfesting næsta áratuginn

Uppbygging á borð við þessa er eins og gefur að skilja langt frá því að vera ókeypis. Aðspurður segir Sveinbjörn að uppbyggingaráætlun flugvallarins geri ráð fyrir að Isavia fjárfesti fyrir meira en 100 milljarða króna í uppbyggingu flugvallarins á næstu 10 árum. „Þetta er því risafjárfesting og það sem við erum nú að horfast í augu við er með hvaða hætti við fjármögnum þessar framkvæmdir. Þetta passaði ágætlega inn í efnahagsreikninginn okkar fram til ársins 2020 en eftir að faraldurinn skall á urðum við aftur á móti fyrir fjárhagslegu höggi, eins og önnur fyrirtæki í þessum geira. Því var mætt af stórum hluta með auknu hlutafé frá eiganda Isavia, íslenska ríkinu. Það gerði það að verkum að við gátum farið á ný í framkvæmdafasa.“

Sveinbjörn segir fjárhagslegan styrkleika Isavia hafa verið það mikinn fyrir faraldur að félagið hefði getað lifað faraldurinn af án þess að hafa þurft á viðbótarfjármagni að halda. „Þá hefðum við aftur á móti ekki getað undirbúið framkvæmdir og fært þær á hönnunar- og síðar framkvæmdastig eins og við höfum gert í dag. Framkvæmdum hefði því seinkað um tvö til þrjú ár. Ákvörðun fjármálaráðherra um hlutafjáraukninguna var mikilvæg til að geta farið strax af stað.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.