Inga H. Sveinbjarnardóttir, aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra, var tekjuhæsti aðstoðarmaður ráðherra í fyrra. Tekjur hennar námu að jafnaði tæplega 1,8 milljónum króna á mánuði. Þetta kemur fram í Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í gær.

Inga H. Sveinbjarnardóttir, aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra, var tekjuhæsti aðstoðarmaður ráðherra í fyrra. Tekjur hennar námu að jafnaði tæplega 1,8 milljónum króna á mánuði. Þetta kemur fram í Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í gær.

Hersir Aron Ólafsson, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra til nokkurra ára, kom skammt undan með rúmlega 1,7 milljónir í tekjur á mánuði að jafnaði árið 2023.

Raunar var Hersir meiri hluta ársins 2023 aðstoðarmaður fjármálaráðherra og um skamman tíma aðstoðarmaður utanríkisráðherra áður en hann endaði í forsætisráðuneytinu fyrr á þessu ári. Var það vegna þess að yfirmaður hans, fyrrnefndur Bjarni Benediktsson, söðlaði um á milli umræddra ráðuneyta.

Sigtryggur Magnason, aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannssonar situr svo í þriðja sætinu en tekjur hans námu að jafnaði rúmlega 1,6 milljónum króna á mánuði í fyrra. Árið 2023 var hann aðstoðarmaður innviðaráðherra en fluttist ásamt ráðherra sínum yfir í fjármálaráðuneytið fyrr á þessu ári.

Hægt er að kaupa Tekjublaðið hér. Að auki er blaðið til sölu í öllum helstu verslunum landsins.

Vegna útgáfu Tekjublaðsins er nauðsynlegt að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2023 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Hafa verður í huga að inni í tekjum getur verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.