Tekjublað Frjálsrar verslunar kemur í allar helstu verslanir á morgun. Í blaðinu verður greint frá tekjum um 4.000 Íslendinga, allt frá forstjórum til áhrifavalda á samfélagsmiðlum. Blaðinu verður dreift til áskrifenda í bítið á föstudaginn.

Tekjuhæsti Íslendingurinn á síðasta ári samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar er Magnús Steinarr Norðdahl, sem lét af störfum sem forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins LS Retail í október á síðast ári eftir að félagið var selt Aptos, félag í eigu Goldman Sachs. Við söluna voru gerðir upp þriggja milljarða kaupréttarsamningar við Magnús og aðra lykilstarfsmenn sem vænta má þess að skýri tekjur hans á árinu að nokkru leyti. Magnús var með tæpar 118 milljónir króna í launatekjur á mánuði í fyrra.

Um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2021 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og öðrum aukastörfum og hlunnindum vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2020, sem greiddur var árið 2021. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Hafa verður í huga að inni í tekjunum getur líka verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignarsparnaði hjá lífeyrissjóði.

Finna má Tekjublað Frjálsrar verslunar á helstu sölustöðum en einnig má panta eintak hér.