Allar fimm mest lesnu fréttir Frjálsrar verslunar á árinu - og raunar efstu níu ef út í það er farið - voru skrifaðar upp úr Tekjublaði ársins, enda alltaf mikið lesið.

1. Launahæsti Íslendingurinn

Það er kannski viðeigandi að mest lesna frétt ársins hafi verið um best launaðasta Íslendinginn samkvæmt álagningaskrám Skattsins og þar með Tekjublaði Frjálsrar verslunar, en þetta árið var það Magnús Steinarr Norðdahl sem gegndi stöðu forstjóra hugbúnaðarfyrirtækisins LS Retail þar til í október í fyrra. Hann lét af störfum þegar félagið var selt til dótturfélags fjárfestingabankans Goldman Sachs, en við það tilefni voru kaupréttarsamninar að andvirði alls um þriggja milljarða gerðir upp við starfsmenn, sem ætla má að skýri að hluta þær 118 milljónir á mánuði að meðaltali sem Magnús greiddi útsvar af.

2. Hafþór Júlíus tekjuhæstur annað árið í röð

Meðal íþróttafólks gnæfði Fjallið svokallaða, Hafþór Júlíus Hafþórsson, yfir annar árið í röð með 5 milljónir króna í meðallaun á mánuði, töluvert yfir þeim 3,5 milljónum sem Annie Mist Þórisdóttir í öðru sætinu og 2 milljónum sem Eiður Smári Guðjohnsen í því þriðja þénuðu á síðasta ári.

3. Launahæstu endurskoðendurnir

Af 10 launahæstu endurskoðendum síðasta árs samkvæmt Tekjublaðinu starfaði helmingurinn hjá stóru endurskoðunarfyrirtækjunum. Þar af voru þrír hjá Deloitte, sem ekki aðeins voru fleiri heldur voru þeir allir fyrir ofan hina tvo hjá KPMG. Efst á blaði og raunar með þreföld laun annars sætisins var hins vegar Lilja Brynja Skúladóttir hjá Advania.

4. Tekjuhæsta fólkið í fluggeiranum

Laun tekjuhæsta flugfólksins í fyrra voru á fjórðu milljón króna á mánuði, en heldur lítill munur var á launum þeirra efstu á lista þar miðað við aðrar starfsgreinar. Efstur var þjálfurnarflugstjórinn Þórarinn Hjálmarsson hjá Icelandair með 3,8 milljónir, en Linda Gunnarsdóttir vermdi hinn enda topp 10 listans með 3,2 milljónir.

5. 62 hjúkrunarfræðingar með yfir milljón á mánuði

Framkvæmda- og deildarstjórar á sviði hjúkrunar voru eins og kannski við má búast fyrirferðamiklir á lista Tekjublaðsins yfir tekjuhæstu hjúkrunarfræðinga landsins í fyrra. Efst var María Fjóla Harðardóttir framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistu með 2,4 milljónir, en þar á eftir koma þrír framkvæmda- og forstjórar og svo yfirhjúkrunarfræðingur á Sólvangi, Heiða Sigríður Davíðsdóttir með 1,8 milljónir.