Rafverktakar hafa haft í nógu að snúast síðustu ár. Ekki er nóg með að koma þurfi upp hleðslustöð rafbíla, jafnvel tveimur, á hvert heimili og víða því til viðbótar fyrir orkuskiptin heldur var „allir vinna“ átakið sem í gildi hefur verið frá því stuttu eftir hrun í einni mynd eða annarri eflt til að bregðast við heimsfaraldrinum. Það ýtti enn frekar undir eftirspurn eftir þjónustu þeirra.

Samanlögð velta þeirra 13 félaga sem hér eru tekin saman nam rétt um 9 milljörðum króna í fyrra og jókst um tíund milli ára. Af því skiluðu þau sín á milli 576 milljóna króna hagnaði, sem samsvarar 51% aukningu milli ára eða tæpum 200 milljónum, og öll voru þau með jákvæða afkomu í fyrra. Hjá 9 af 13 jukust tekjurnar milli ára og hagnaðurinn jókst hjá 8 þeirra.

Af einstökum félögum stendur Rafholt upp úr hvað veltu og hagnað varðar með hátt í 2,4 milljarða veltu og 271 milljónar króna hagnað. Báðar tölur hækkuðu einnig mest milli ára hjá Rafholti í krónum talið, veltan um yfir 300 milljónir og hagnaðurinn um tæpar 100.

Mesta tekjufallið í krónum talið var hjá H&S Rafverktökum og Rafeyri, 77 og 76 milljónir, en ætla má að hið fyrrnefnda hafi fundið nokkuð meira fyrir því með sína 300 milljóna veltu árið áður heldur en Rafeyrir sem hafði velt ríflega 1,3 milljörðum. Hagnaðurinn hélst svo til óbreyttur milli ára hjá Rafeyri í um 60 milljónum, en helmingaðist úr 29 í 15 hjá H&S.

„Allir vinna“ veitir almennt rétt á endurgreiðslu 60% virðisaukaskatts sem greiddur er af vinnu við íbúðarhúsnæði, en í heimsfaraldrinum var sú heimild hækkuð upp í 100%. Samhliða því höfðu margir bæði aukinn tíma og peninga til að sinna viðhaldi og endurbótum á húsnæði vegna faraldursins.

Rafvæðing bílaflotans hefur á sama tíma verið á miklu flugi og raunar verið í veldisvexti síðustu ár. Snúrubílar svokallaðir – hreinir rafbílar og tengiltvinnbílar, sem eiga það sameiginlegt að þá má hlaða með hleðslustöð sem tengd er við bílinn með snúru – njóta síaukinna vinsælda og fer ört fjölgandi, og ætla má að fyrir velflesta þeirra sé sett upp hleðslustöð heimafyrir. Frá upphafi síðasta árs hafa nú 19.230 snúrubílar verið nýskráðir, fleiri en samanlagt fram að því frá upphafi.

Árið 2016 náði fjöldi nýskráðra snúrubíla fjögurra stafa tölu í fyrsta sinn þegar fjöldinn tvöfaldaðist milli ára í tæpa 1.200 bíla. Til samanburðar eru þeir rétt að detta í 10 þúsund talsins það sem af er þessu ári og eru þegar orðnir fleiri en á nokkru heilu ári hingað til. Sé litið til hlutfalls snúrubíla af heildarfjölda var það yfir þriðjungi árið 2020 og yfir 40% í fyrra og það sem af er þessu ári.

Vinnan við orkuskiptin er því rétt að byrja og þar munu rafverktakar spila lykilhlutverk enda kemst rafbíll ekki langt án hleðslustöðvar.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði