Hjónin Erna Gísladóttir og Jón Þór Gunnarsson eru eigendur bílaumboðsins BL, eins stærsta bílaumboðs landsins.

Erna hefur stýrt félaginu um árabil en Guðmundur Gíslason, afi Ernu Gísladóttur, stofnaði bílaumboðið, sem upphaflega hét Bifreiðar og landbúnaðarvélar árið 1954.

Fyrirtækið endaði fljótt að fullu í eigu fjölskyldunnar og faðir hennar, Gísli Guðmundsson, stýrði því í áratugi þar til Erna sjálf tók við af honum. Hún gegndi stöðunni í heil 17 ár eða fram til ársins 2008, en 2007 seldi fjölskyldan loks félagið.

Erna tók sæti í stjórn Haga árið 2010 og stofnaði um svipað leyti fjárfestingafélagið Egg, og kom í gegnum það meðal annars að kaupum á ráðandi hlut í tryggingafélaginu Sjóvá árið 2011, hvar hún varð í kjölfarið stjórnarformaður.

Sama ár gekk Erna einnig frá öðrum stórum kaupum þegar hún eignaðist fjölskyldufyrirtækið, B&L, á ný, auk Ingvars Helgasonar, sem þá voru komin í eina sæng undir eignarhaldsfélaginu BLIH og höfðu sín á milli umboðið fyrir bifreiðar frá Nissan, Subaru, Hyundai, BMW, Land Rover, Renault, Opel, Isuzu og Irisbus.

Þá keypti Erna 250 milljóna króna hlut í Högum árið 2019, en ári síðar hætti hún í stjórn smásölusamstæðunnar eftir áratugssetu.

Áskrifendur geta lesið um 50 ríkustu Íslendingana í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar og þá er hægt að kaupa tölublaðið hér.