Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, segir að kaupin á Íslenskri orkumiðlun í fyrra styrki Festi og N1 verulega til framtíðar og undirstriki þá umbreytingu N1 í að verða orkufélag. Þetta kemur fram í viðtali við Eggert Þór í bókinni 300 stærstu, sem kom út fyrir skömmu. Hann segir að á síðasta ári hafi um 17% af allri orku sem N1 seldi verið raforka og það hlutfall muni aukast verulega á komandi árum.

„Við sjáum tækifæri í því að vera leiðandi í orkuskiptum því ríkið mun aldrei græja þetta fyrir okkur nema auðvitað skattleggja meira, leggja enn meiri gjöld á bensín- og dísilbíla,“ segir hann. „Saga ríkisvaldsins í neyslustýringu er ekki góð samanber þegar lægri gjöld voru lögð á dísilbíla af því þeir menguðu svo lítið. Síðan kom í ljós að þeir menguðu meira en bensínbílar. Enn í dag eru lægri skattar á dísilolíu og þess vegna er hún ódýrari en bensín en það eru engin rök fyrir því – ekki ein einustu. Þetta var einu sinni ákveðið og þar við situr.

Annað dæmi er að í tíð vinstri stjórnarinnar eftir bankahrunið voru olíufélögin skikkuð til að kaupa íblöndunarefni í dísilolíu, sem er pálmaolía. Pálmaolían gerir ekki neitt. Þetta er bara óumhverfisvænt því til þess að búa hana til þarf að ryðja skóga.“

Árið 2030

Samkvæmt aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum frá 2018 verður innflutningur á dísil- og bensínbílum bannaður árið 2030. Spurður hvort þetta sé raunhæft svarar Eggert Þór: „Nei, ég held að það sé fullmikil bjartsýni. Meðalaldur bílaflotans á Íslandi er 12-14 ár þannig að það mun taka 20 ár að endurnýja hann.

Síðan þarf að skoða þetta betur eins og til dæmis bera kolefnisspor lítilla bensínbíla saman við rafmagnsbíla. Ég er ekki viss um að niðurstaðan sé sérlega jákvæð fyrir rafmagnsbílana. Við þurfum að flokka batteríin, sem við notum heima hjá okkur. Stóru batteríin í rafmagnsbílnum munu líka þurfa einhverja sérstaka meðhöndlum. Ég skil vel að ríkið vilji draga úr notkun stórra dísil- eða bensínbíla, sem eyða miklu, en litlir bensínbílar eru mjög hagkvæmir og ég held að pólitíkin muni uppgötva það á einhverjum tímapunkti.

Ísland er fyrirmyndarland þegar kemur að hreinni orku og í raun eru einungis Norðmenn á sama báti hvað þetta varðar. Að við séum í samfloti með Evrópulöndum, þar sem græn orka er kannski 10% af heildarnotkuninni á meðan hún er 80% hjá okkur, er svolítið sérkennilegt. Í Evrópu er kannski verið að tala um að auka græna orkunotkun úr 10 til 15% á meðan við ætlum úr 85 í 95%. Þetta segir ansi mikið. Ég held að það væri farsælla að láta einkageirann stýra þessari þróun en að ríkið geri það með boðum og bönnum.“

Megum ekki hætta að lifa lífinu

„Sumir tala um að við þurfum að draga úr alls konar neyslu og það er vissulega hægt að breyta neyslumynstrinu en ég held að kynslóðin sem er að vaxa úr grasi vilji ekki fara aftur í moldarkofana — hún vill lifa lífinu. Í dag ferðast ungt fólk til dæmis miklu meira en tíðkaðist þegar ég var ungur og það vill ekkert hætta því. Það vill ekki hætta að keyra bíl til að minnka sóun enda er það ekki leiðin að mínu mati. Við eigum miklu frekar að hjálpa umhverfinu á þann hátt sem við getum. Við þurfum að taka stærri og öfgakenndari skref í umhverfismálum en nokkru sinni fyrr með hag komandi kynslóða að leiðarljósi. Sú kynslóð er mun meðvitaðri um samfélagsleg málefni, umhverfið, endurvinnslu og sóun og slíkir þættir hafa nú meira vægi þegar kemur að kauphegðun þessa hóps.“

Einkaþotan varð eftir í Færeyjum

„Ég hef þó smá áhyggjur af öfgafullri umræðu í tengslum við umhverfismál. Það vantaði til dæmis ekki uppsláttinn á Acrtic Circle -ráðstefnunni en þar var hópur fólks, sem hafði flogið á einkaþotu til Færeyja og ferðast þaðan til Íslands með áætlunarflugi. Síðan kom danski krónprinsinn hingað í einkaþotu til að kynna sér okkar grænu orkuframleiðslu. Þetta er því miður ekki trúverðugt. Ég er ekki að segja að allir sem tali fyrir umhverfismálum hegði sér svona en of margir. Bill Gates er allavega að auka vatnsbúskap í Afríku, sem er trúverðugt því hægt er að mæla árangurinn.“

Í hvað fóru milljarðarnir?

Eggert Þór segir að í stað þess að ríkið sé að innheimta milljarða í kolefnisgjald og umhverfisskatta þurfi að gera eitthvað sýnilegt sem skili raunverulegum árangri í umhverfismálum.

„Ríkisvaldið rukkar skattgreiðendur um háar fjárhæðir, sem eiga að renna í umhverfismál en ég hef ekki séð neitt áþreifanlegt gert fyrir þá peninga. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki sett niður eina hríslu. Það var talað um það fyrir nokkru að aðgerðaráætlun í loftslagsmálum væri fullfjármögnuð en hvað þýðir það, það veit það enginn. Það er svakalegt að samfélagið sé búið að greiða milljarðatugi í umhverfisskatta og það veit enginn hvaða árangri það hefur skilað. Ég myndi allavega vilja fá að sjá það uppgjör. Við hjá Festi myndum aldrei eyða háum fjárhæðum árlega í eitthvað umhverfisverkefni án þess að vita nákvæmlega hverju það hefur skilað. Það myndi aldrei gerast en hjá ríkinu er þetta greinilega öðruvísi.“

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .