Í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út 23. júní er ítarleg umfjöllun um eignarhald fyrirtækjanna sem skráð eru í Kauphöll Íslands.

Stærstu eigendur hvers félags eru tíundaðir auk frekari upplýsinga og því til viðbótar má finna ítarlegar úttektir á stærstu einka- og erlendu fjárfestunum, hlutafjáreign bankanna í Kauphöllinni fyrir hönd annarra, og sögu og stöðu sambands lífeyrissjóðanna við Kauphöllina.

Í samantekt um einkafjárfesta er farið yfir þá 10 stærstu eftir samanlögðu markaðsvirði.

7. Strengur

Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson
Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson
© Sverrir Vilhelmsson (Sverrir Vilhelmsson)

Fjárfestingafélagið Strengur hefur verið áberandi á íslenskum hlutabréfamarkaði eftir að félagið eignaðist 50,1% hlut í Skeljungi í fyrra. Eftir kaupin, sem voru að mestu leyti fjármögnuð með lánum frá Arion banka og Íslandsbanka, var nafni Skeljungs breytt í Skel fjárfestingafélag og breytingar gerðar á starfseminni. Eigið fé Strengs í lok síðasta árs nam 11,5 milljörðum eftir 5,6 milljarða króna hagnað í fyrra.

Strengur er í eigu eignarhaldsfélaganna 365, í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, RES II, í eigu Sigurðar Bollasonar og RPF sem er meðal annars í eigu Þórarins Arnars Sævarssonar, sérleyfishafa Remax á Íslandi. Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar Pálmadóttur, er stjórnarformaður Strengs og Skeljungs.

8. Brimgarðar

Gunnar Þór Gíslason
Gunnar Þór Gíslason
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Brimgarðar eru meðal stærstu hluthafa þriggja stærstu fasteignafélaganna og nemur samanlagt virði skráðra bréfa þeirra á íslenska hlutabréfamarkaðnum rúmum 14 milljörðum króna. Þá á félagið rúmlega eitt prósent í tölvuleikjaframleiðandanum Solid Clouds.

Móðurfélag Brimgarða er Langisjór, hvers eigið fé nam 27 milljörðum króna í lok síðasta árs. Langisjór er í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna sem oft eru kennd við heildverslunina Mata. Systkinin eiga auk þess 3,6% hlut í flugfélaginu Play.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út 23. júní. Hægt er að gerast áskrifandi hér.