Viðskiptaráð birti í liðinni viku úttekt á opinberu eftirliti en þar var heilbrigðiseftirlit meðal þess sem var til skoðunar. Markmið heilbrigðiseftirlits samkvæmt lögum er að tryggja hollustuhætti, mengunarvarnir og öryggi matvæla. Eftirlitið skiptist á milli á ellefu opinberra aðila á tveimur stjórnsýslustigum.
Viðskiptaráð birti í liðinni viku úttekt á opinberu eftirliti en þar var heilbrigðiseftirlit meðal þess sem var til skoðunar. Markmið heilbrigðiseftirlits samkvæmt lögum er að tryggja hollustuhætti, mengunarvarnir og öryggi matvæla. Eftirlitið skiptist á milli á ellefu opinberra aðila á tveimur stjórnsýslustigum.
Þannig er samræmingarhlutverk eftirlitsins hjá tveimur stofnunum sem heyra undir sitthvort ráðuneytið. Annars vegar Umhverfisstofnun, sem heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og hins vegar Matvælastofnun, sem er undir matvælaráðuneytinu. Tæknileg framkvæmd eftirlitsins er síðan í höndum níu svæðisbundinna eftirlitsaðila, sem hver og einn starfar í umboði sérstakrar heilbrigðisnefndar á vegum sveitarfélaga. Þyki lesendum þetta fyrirkomulag óþarflega flókið, þá er höfundur sammála því.
Níu nefndir og fimm gagnagrunnar
Mikið óhagræði fylgir því að hafa níu heilbrigðisumdæmi, sem hvert rekur sitt eigið heilbrigðiseftirlit. Umdæmin halda svo fimm ólíka gagnagrunna og gjaldskrár eru ekki samræmdar milli landshluta. Nefndirnar eru misvel staddar hvað varðar fjárráð og mannafla og hafa því ekki sama bolmagn til að sinna skyldum sínum. Á meðan svo er má búast við ósamræmi í framkvæmd eftirlits á milli ólíkra umdæma.
Þetta fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits er til marks um óhagræði og sóun á skattfé. Tækifæri til úrbóta og einföldunar í framkvæmd eftirlitsins eru mörg, en það þarf ekki að leita langt yfir skammt til að finna tillögur þess efnis.
Sex skýrslur um sama vandann
Það eru ekki nýjar fréttir að framangreint fyrirkomulag feli í sér óhagræði og sóun. Í skýrslu frá árinu 2001 um Hollustuvernd ríkisins er fjallað um þau vandamál sem fylgja fyrirkomulaginu, sérstaklega hvað varðar samræmingu, þegar eftirlitið er á höndum svo margra aðila. Heilbrigðiseftirlit var líka umfjöllunarefni í skýrslu Hagfræðistofnunar um eftirlitsiðnaðinn á Íslandi frá 2003. Um galla fyrirkomulagsins var einnig fjallað í úttekt Ríkisendurskoðunar á Matvælastofnun frá árinu 2013, í skýrslu frá starfshópi um fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits frá árinu 2015, í greiningu KPMG á opinberu eftirliti frá 2020 og nú síðast í skýrslu starfshóps um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum frá því í ágúst 2023.
Skýrslurnar sex innihalda allar tillögur að úrbótum. Það mætti því ætla að nægar upplýsingar lægju fyrir til að taka vel ígrundaða ákvörðun um breytingar á umgjörð um heilbrigðiseftirlit. Stjórnvöld virðast þó ekki tilbúin til að taka ákvörðun, þar sem það á að koma á fót nýjum stýrihópi sem er falið að „rýna tillögur og ólíkar sviðsmyndir starfshópsins [frá 2023] og koma með tillögu að þeirri sviðsmynd sem sé best til þess fallin að tryggja skilvirka framkvæmd eftirlits og einföldun á kerfinu“. Sex skýrslur, yfir 23 ára tímabil, sem fjalla með einum eða öðrum hætti um kerfið virðast þannig ekki vera nóg til þess að ráðast í stefnubreytingu.
Einföldum og útvistum
Viðskiptaráð leggur til að heilbrigðisumdæmum verði fækkað úr níu í eitt. Stjórnsýsluþáttur eftirlitsins verði samhliða færður til eftirlitsstofnana ríkisins. Annars vegar verði ábyrgð með eftirliti með hollustuháttum og mengunarvörnum færð til Umhverfisstofnunar og ábyrgð á eftirliti með matvælum færð til Matvælastofnunar. Tillögurnar eru í samræmi við tillögur starfshópsins frá 2023 og reyndar líka tillögu úr skýrslunni frá 2001. Viðskiptaráð leggur jafnframt til að framkvæmd heilbrigðiseftirlits verði útvistað til faggiltra eftirlitsstofa. Þannig væri tæknileg framkvæmd eftirlitsins í höndum einkaaðila, en mótun leikreglna áfram hjá stjórnvöldum.
Þessar tillögur myndu einfalda heilbrigðiseftirlit verulega og skila samræmdu eftirliti um allt land, jafnræði landshluta á milli og einum gagnagrunni eftirlitsupplýsinga. Það mun draga úr sóun, fyrirtækjum og skattgreiðendum til heilla. Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við framkvæmd heilbrigðiseftirlits. Tími er kominn til að taka ákvörðun og einfalda kerfið.
Höfundur er sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs Íslands.