Fjölmiðlar hafa fjallað um ósætti að stjórnarheimilinu undanfarið. Sumir meira en aðrir. Þannig voru tvær fréttir um sama mál í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins á miðvikudaginn í síðustu viku.

Þar var rætt við Guðrúnu Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og Lilju Alfreðsdóttir ráðherra rafrænna skilríkja og íslenska dansflokksins um stjórnarsamstarfið. Það vakti athygli Týs að sú síðarnefnda sagði samstarfið standi á traustum grunni þó svo að stundi greini mönnum á um álitamál. Nefndi Lilja sérstaklega síðasta útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka sem dæmi um það. Þar hefði hún verið gagnrýnin á hvernig var staðið að sölunni.

***

Gallinn við þetta dæmi Lilju er að það er ekki allskostar rétt. Eftir síðasta útboð sagðist Lilja hafa verið andsnúin því að útboðið yrði eyrnamerkt fagfjárfestum. Því miður er ekkert sem bendir til þess. Lilja situr í ráðherranefnd um efnahagsmál og fram hefur komið að hún hafi aldrei bókað nein andmæli við útfærslu útboðsins þegar málið var rætt á þeim vettvangi.

Þannig var haft eftir Katrínu Jakobsdóttir for­sæt­is­ráð­herra að hvorki Lilja Alfreðs­dótt­ir né nokkur annar ráð­herra hafi óskað að færa neitt til bókar um sölu­ferli á hlut Íslands­banka þegar málið var rætt í rík­is­stjórn og ráð­herra­nefnd um efna­hags­mál.

***

Nei Lilja stökk bara á óánægjuvagninn um leið og henni var ljóst að útboðið yrði umdeilt meðal þorra almennings. Slóst hún þar með í lið stjórnarandstæðinga sem sáu tækifæri í því að þyrla upp meira moldviðri en nokkurt tilefni var til.

Sumir vinir eru þannig innréttaðir að þeir gera óvini óþarfa með öllu. Týr veltir því fyrir sér hvort að fleiri þættir en mislyndi um stefnu stjórnvalda séu að grafa undan stjórnarsamstarfinu.

Týr er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins en þessi pistill birtist fyrst í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðins.