Íslandsbanki sendi frá sér Kauphallartilkynningu eftir lokun markaða á mánudag. Í henni kom fram að bankinn kynni hafa gerst brotlegur þegar 22,5% hlutur í bankanum var seldur í mars í fyrra. Í tilkynningunni segir að í frummatinu sé athygli vakin á heimildum FME til að leggja á stjórnvaldssektir og ljúka málinu með sátt. Sáttarferli sé hafið og bankinn muni á næstu vikum setja fram skýringar sínar og sjónarmið við frummati FME.


Þó svo að fréttatilkynning Íslandsbanka hafi verið frekar rýr í roðinu má lesa eitt og annað úr henni. Það að sáttarferli komi til álita gefur vísbendingar um eðli brotanna. Þannig segir í 1. grein reglna um heimildir Fjármálaeftirlitsins til að ljúka máli með sátt:


Telji Fjármálaeftirlitið aðila hafa gerst brotlegan við ákvæði laga og reglna þar sem stofnuninni er falið vald til ákvörðunar stjórnvaldssekta, er heimilt, með samþykki málsaðila, að ljúka máli með sátt, enda hafi aðilinn eftir atvikum látið af háttsemi eða gert viðeigandi úrbætur. Sama gildir um brot á ákvörðunum stofnunarinnar á grundvelli framangreindra laga og reglna. Heimild til sáttar nær ekki til meiri háttar brota sem refsiviðurlög liggja við. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins.“

Með öðrum orðum þá teljast ofangreind brot ekki meiriháttar og ekki framin með sérstaklega vítaverðum hætti. Eins og fram kom í Morgunblaðinu á þriðjudag eru mörg fordæmi þess að fjármálafyrirtæki geri sátt við FME. Forsenda þess er þó að viðkomandi aðili gangist við að hafa brotið gegn tilgreindum ákvæðum laga samkvæmt samkomulagi.

Ekkert af þessu kom fram í tíu fréttum Ríkisútvarpsins á mánudag. Enn og aftur leitaði fréttastofan til Ásgeirs Brynjars Torfasonar, doktors í fjármálum. Viðtalið vakti umtalsverða athygli enda afhúpaði doktorinn yfirgripsmikið þekkingarleysi á málinu.Hann gaf sér að sektirnar myndu sennilega vera afar háar og að hann kannaðist ekki við stuðst væri við sáttarferli við lausn mála sem fara inn á borð Fjármálameftirlitsins.


Eins og fyrr segir eru í gildi reglur sem heimila FME að ljúka málum með sátt þó svo að
Ásgeir Brynjar hafi ekki heyrt á þær minnst. Frá árinu 2008 hefur hátt í tvö hundruð málum verið að lokið með slíkri sátt og sektargreiðslum. Flestir fjölmiðlar og þar með talið RÚV hafa fjallað um eitthvert þessara mála.


Það gerir ekki mikið fyrir trúverðugleika fréttastofunnar að kalla ítrekað á sérfræðing sem hefur augljóslega ekkert vit á því sem er rætt um hverju sinni.
***

Innherji, viðskiptavefur Vísis, fjallar um framgöngu Ásgeirs Brynjars og fréttastofu RÚV í málinu. Þar er málflutningur Ásgeirs hrakinn og segir meðal annars:

Ásgeir Brynjar sagði jafnframt að tilkynning bankans til Kauphallarinnar benti til þess að fjármálaeftirlitið hefði gefið til kynna sektargreiðslur og þar hlyti að vera undir „alvarleg upphæð“. En þvert á spá doktorsins sýnir reynslan að sektargreiðslur eru oftast minni háttar í samhengi hlutanna. Á árunum 2007 til 2019 skiluðu 113 sáttargreiðslur ríkissjóði ekki nema 278 milljónum króna, auk þess sem heimild fjármálaeftirlitsins til sáttar nær ekki til brota sem teljast meiri háttar.

Líklega verður sáttargreiðslan nokkrir tugir milljóna en hæsta stjórnvaldssekt sem fjármálaeftirlitið hefur lagt á fjármálafyrirtæki var 88 milljóna króna sekt á Arion banka árið 2020 fyrir að upplýsa ekki tímanlega um hópuppsagnir hjá bankanum.“

Og enn fremur:

Þá sagði Ásgeir Brynjar að stjórnendur Íslandsbanka ættu ekki eftir að taka undir þá skilgreiningu að með sáttarferli væru þeir að viðurkenna brot af hálfu bankans. Það stendur hins vegar skýrt í lagaheimildinni að í sátt felist að málsaðili hafi gengist við að hafa brotið af sér og upplýst að fullu um brotið.“


Og í niðurlagi umfjöllunar Innherja er föstum skotum beint að Ríkisútvarpinu. Þar segir:

Eflaust má réttlæta tilvist fréttastofu Ríkisútvarpsins þannig að mikilvægt sé að halda úti burðugri fréttastofu sem er ekki bundin markaðslögmálum. Slík fréttastofa ætti, að minnsta kosti á blaði, að hafa svigrúm til að kafa djúpt ofan í hin ýmsu mál og staðreyna fullyrðingar. En þegar ríkisfréttastofan gerist ítrekað sek um að birta gífuryrði og rangfærslur sem auðvelt er að hrekja (kannski vegna þess að ávallt er leitað til sömu viðmælenda) má sannarlega efast um það hvort skattpeningunum sé vel varið.“

Hægt að er taka undir hvert orð.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 12. janúar 2023.