Fjarskipti teljast til mikilvægustu grunninnviða samfélags. Góð nettenging er jafn sjálfsögð fyrir heimili, fyrirtæki og stofnanir eins og að geta kveikt ljós. Fjarskiptatenging verða því að vera hagkvæm, fyrir notendur og fjarskiptaveitur og ekki síst fyrir umhverfi.

Allt frá upphafi internetsins hefur bandbreiddarþörf aukist og ekkert lát er á þeim vexti. Alþjóðafjarskiptasambandið (ITU) áætlar að gagnanotkun evrópskra heimila muni aukast um 20% á ári. Aukin notkun bandbreiddarfrekra forrita eins og straumspilun á myndbandi, netleikjum, myndfundum, fjarvinnu, sýndarveruleika og gervigreind þýðir aukin gagnanotkun sem skapar þörf fyrir aukna bandbreidd. Ljóst er að þörfin eykst gríðarlega á næstu árum.

Tvenns konar ljósleiðaratækni heimtauga: PON og P2P

Víða í Evrópu er kopar enn ríkjandi í heimilistengingum, en á síðustu árum hefur uppbygging ljósleiðarakerfa til heimila og fyrirtækja verið mikil þar eins og á Íslandi. Ljóst mun að ljósleiðari er sú tækni sem verður ríkjandi á heimsvísu og er sú þróun komin einna lengst hér á landi eftir mikla uppbyggingu ljósleiðarakerfa síðustu ára. Almennt er talið að ljósleiðaratengingar til heimila séu frumskilyrði fyrir sköpun stafrænna samfélaga. Tvær helstu gerðir ljósleiðarkerfa eru annars vegar svokölluð PON (e. passive optical network ) og hins vegar P2P (e. point-to-point). Á þeim er lítill munur hvað varðar upplifun notenda en töluverður munur er á hönnun og hagkvæmni þeirra.

PON virkar þannig að ljósleiðaralína liggur frá tengipunkti í deili þar sem línusambandinu er deilt niður á nokkra notendur hverrar stofnlínu. P2P er ein lína frá tengipunkti og alla leið til notanda og er aðeins einn notandi tengdur hverri línu.

95% hlutdeild PON tenginga í heiminum

Hvað varðar útbreiðslu þessara lausna, þá hefur P2P tæknin takmarkaða dreifingu og er á undanhaldi. Hana er helst að finna í nokkrum netum í Norður Evrópu og eitthvað í Bandaríkjunum. PON tæknin hefur þannig orðið ofan á og eru í dag meira en 95% allra ljósleiðaratenginga til heimila í heiminum veittar með PON tækni. Þessi útbreiðsla þýðir að mikil framþróun á sér stað með PON búnað og er þannig unnið að stöðlun á 25Gb/s, 50Gb/s og 100Gb/s tækni sem mun uppfylla alla fyrirsjáanlega gagnaflutningsþörf heimila næstu áratugina. Búast má við að þessi tækni komi á markað á næstu 5-10 árum.

Kostir PON umfram P2P

En hverjar eru helstu ástæður þess að PON tæknin hefur orðið ofan á sem háhraða breiðbandstenging fyrir heimili? Það má segja að PON net séu sérstaklega hönnuð fyrir tengingar heimila. Netin krefjast færri ljósleiðaraþráða en P2P net og eru því hagkvæmari í lagningu og í rekstri. Færri þræðir þýða einnig að viðgerðatími er mun styttri, fari strengur í sundur. Einnig eru PON net með mjög öfluga villuleiðréttingu til að auka stöðugleika tenginga og þá er allur gagnaflutningur yfir PON net dulkóðaður til að vernda gögn gegn óprúttnum aðilum. Vegna hönnunar sinnar krefst PON tæknin mun minni virks búnaðar en P2P tæknin, sem þýðir minni rafmagnsnotkun og minni rýmisþörf búnaðar.

Minni umhverfisáhrif og lægri rekstrarkostnaður

Samkvæmt búnaðarframleiðandanum Nokia þá krefst PON búnaður allt að 30x minna rýmis í hýsingarsölum en búnaður P2P, og allt að 15x minna rafmagns á hverjar 30 þúsund tengingar. Þetta þýðir að PON tengingar hafa mun minna kolefnisspor en samsvarandi P2P tengingar.

Sóun er lítil, bandbreidd hverrar línu er vel nýtt og sveigjanleiki kerfisins meiri þar sem fjöldi notenda getur breyst án þess að því fylgi mikil viðbótar vinna eða aukinn kostnaður. Mörg fjarskiptafyrirtæki Evrópu sem byrjuðu með P2P tækni hafa þegar fært sig eða eru á leið yfir í PON. Það er því margt sem er PON tækninni í vil – PON er hagkvæmari fyrir þjónustuveitendur og neytendur, með lægri rekstrarkostnaði, aukið öryggi og það sem meira er, þá er PON mun umhverfisvænni og sjálfbærari lausn.

Míla eitt með PON á Íslandi

Míla er í dag eini netrekandinn á Íslandi sem býður breiðbandstengingar með PON högun. Míla hefur þannig í allmörg ár boðið gígabit-PON, eða svokallaða GPON tækni til að tengja viðskiptavini á ljósleiðarakerfi sitt.

Míla kynnti á dögunum að á næstu mánuðum ætli fyrirtækið að bjóða viðskiptavinum sínum möguleika á mun hraðari ljósleiðaratengingu með svokallaðri XGS-PON tækni. XGS-PON er uppfærður staðall fyrir PON sem styður möguleika á allt að tífalt meiri hraða en nú býðst.

10x – Vettvangur til framtíðar

Frá og með 1. október mun Míla undir merkjum „10x – Vettvangur til framtíðar“ bjóða fjarskiptafélögum og viðskiptavinum þeirra að uppfæra heimili á höfuðborgarsvæðinu í XGS-PON. Innleiðingu 10x á höfuðborgarsvæðinu á að ljúka fyrir 1. apríl n.k. Míla stefnir á að bjóða 10x utan höfuðborgarsvæðisins á næstunni.

Hægt er að fylgjast með á vef Mílu hvenær heimilum býðst þjónustan. Míla ráðgerir frekari uppbyggingu XGS-PON netsins á næsta ári. — Það eru áhugaverðir tímar framundan í íslenskum fjarskiptum!

Höfundar eru Kristinn Ingi Ásgeirsson, deildarstjóri Netreksturs og Jóhanna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu og sölu hjá Mílu.