Einokun ríkisins á sölu áfengis til neytenda hefur löngu verið rofin. Einstaklingar geta keypt sér bjór og léttvín hvaða tíma sólarhrings sem er í fjölda netverslana. Sumar þeirra höfða til vín-áhugamanna en aðrar til þeirra sem vilja komast í nokkra hrímaða með matnum. Costco, sem er fimmta stærsta smásölukeðja heimsins, tilkynnti svo í vikunni að einstaklingar gætu keypt áfengi gegnum Netið á kjörum sem eru í mörgum tilfellum hagstæðari en í ríkiseinokunarversluninni.

***

Það sér hver maður að forsendur fyrir rekstri ÁTVR eru brostnar. Það er að segja hafi þær einhverntíma verið til staðar. Ívar Arndal, forstjóri ríkisáfengisverlslunarinnar, sótti sér innblástur til John D. Rockefeller í fyrra í ávarpi sínu með ársskýrslu fyrirtækisins þegar hann rökstuddi sögulega nauðsyn ríkiseinokunar á sölu áfengis. Rockefeller var sem kunnugt er baptisti, bindindisfrömuður, einokunarsinni og áhugamaður um kenningar Herberts Spencer um félagslegan darwinisma. Haft er eftir Rockefeller að fyrirtæki sem komast í einokunarstöðu væri einungis niðurstaða lögmál leiksins um að hinir hæfustu lifa af.

***

Nú er komið á daginn það er engin söguleg nauðsyn fyrir störfum Ívars né ríkissölu á einokun. Týr bendir á þá staðreynd að stjórnunar- og rekstrarkostnaður ÁTVR jókst um sjötíu milljónir milli ára og verður það að teljast vel af sér vikið hjá ríkisfyrirtæki sem hefur ekki einu sinni stjórn yfir sjálfu sér.

***

Það eina sem stjórnmálamenn hafa haft um málið að segja er að nokkrir Framsóknarmenn á þingi telja að ÁTVR eigi að hafa opið á sunnudögum. Skilningsleysið á stöðunni er algjört.

***

Týr hefur áhyggjur af því að sinnuleysi stjórnmálamanna við breyttri stöðu verði jafn afdrifaríkt og andvaraleysi þeirra gagnvart frelsi fjölmiðla á níunda áratugnum. Þegar það blasti við öllum að einkareknir ljósvakamiðlar myndu taka við brást kerfið við með að styrkja RÚV enn frekar og niðurstaðan er að við erum með ríkisrekið gímald sem kostar skattgreiðendur marga milljarða á ári hverju og er fæstum til gagns.

***

Ef ekkert verður gert er ljóst að ÁTVR verður að öðru slíku gímaldi til frambúðar – öllum til sárra ama og engum til gagns. Og það er hreinlega rannsóknarefni að það séu til stjórnmálamenn sem hafa þá sannfæringu að ríkið eigi að standa í smásölurekstri í samkeppni við almenning.

Týr er einn af reglulegum pistlum Viðskiptablaðsins.