Um 535 milljarðar í óverðtryggðum íbúðalánum, sem bera fasta vexti í dag, koma til vaxtaendurskoðunar á árunum 2024 og 2025.

Í ljósi undangenginna vaxtahækkana er ljóst að fjölmargir þeirra lántaka munu íhuga að færa sig yfir í verðtryggð lán.

Munurinn á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum

Óverðtryggð lán eru lang algengasta lánaformið í heiminum. Hins vegar voru fyrstu verðtryggðu lánin sem vitað er um, gefin út árið 1780 af bandarísku fyrirtæki og útgáfa verðtryggðra ríkisskuldabréfa og fyrirtækjabréfa á sér stað í nánast öllum þróuðum löndum í heiminum.

Þegar lönd búa við lága verðbólgu, er þó lítil sem engin þörf fyrir verðtryggð íbúðalán. Þörfin hins vegar eykst þegar verðbólga er bæði há og óstöðug, og erum við Íslendingar alls ekki ein um að hafa stuðst við verðtryggð íbúðalán við þær aðstæður. Danir byrjuðu að gefa út verðtryggð íbúðalán nokkrum árum á eftir okkur, en hættu því þegar verðbólga þar hjaðnaði. Nokkur ríki Bandaríkjanna gerðu það sama, og fleiri lönd sem glíma enn við þessar aðstæður eins og t.d. Tyrkland, gera það enn í dag.

Ýmsir kostir og gallar fylgja báðum þessum lánaformum. Raungreiðslubyrði verðtryggðra lána helst tiltölulega stöðug, en getur verið mjög sveiflukennd út lánstíma óverðtryggðra lána. Hins vegar getur eigið fé verðtryggðra lánataka lækkað hratt ef raunlækkun íbúðaverðs á sér stað, líkt og gerðist frá 2008 til 2010 og svo aftur núna síðast liðið ár. En til langs tíma tala gögnin sínu máli, eins og meðfylgjandi línurit sýnir.

Auðvelt er þó að komast hjá þessum ókostum, með því að greiða aukalega inn á verðtryggð lán. En það á aðeins við, ef lántakar hafa tök á því. Ef þeir hafa ekki tök á því, þá allavega ráða þeir mun betur við afborganir og eru líklegri til að standa í skilum.

Íbúðaverð & verðlag
Íbúðaverð & verðlag

Þegar þessir kostir og gallar eru bornir saman, er líka hollt að spyrja sig hvers vegna fólk tekur íbúðalán yfirhöfuð. Oftast er það vegna þess að kaupandi hafði ekki efni á að staðgreiða fasteignina við kaupin, og kaus í staðinn að eignast hana yfir langan tíma.

Slík eignamyndun virkar alltaf þannig að því hærri sem afborganir eru og því fyrr sem þær eiga sér stað, því hraðar eignast kaupandi eignina. En það er til lítils að ætla sér að eignast fasteign hratt, ef afborganir verða óviðráðanlegar.

Í daglegri umræðu ríkja mikil trúarbrögð um þessi tvö lánaform, en þegar þau ráð eru veitt að „aldrei“ velja þetta eða „alltaf“ velja hitt, gefur það góða vísbendingu um að leita ráða annars staðar. Raunveruleikinn er sá að kostir og gallar fylgja báðum lánaformum, og á endanum er valið lántakans og aðeins lántakans.

Höfundur er eigandi Nóbel námsbúða ehf. og stundar þar kennslu í viðskipta- og hagfræði.