Umfjöllun Ríkisútvarpsins um efnahagsmál hefur styrkst eftir að Benedikt Sigurðsson hóf störf á fréttastofu ríkismiðilsins. Það var svo sem ekki úr háum söðli að detta. Um áratugaskeið hafa stjórn­endur fréttastofunnar haft lítinn áhuga á að byggja upp þekkingu á viðskiptum og efnahagsmálum og fréttaflutningurinn verið því marki brenndur.

Eigi að síður flutti Benedikt undarlega frétt í útvarps- og sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins miðvikudaginn 6. september. Fréttin var að Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra segir koma til greina að ríkið dragi úr arðsemiskröfu á Landsbankans til að „minnka kostnað neytenda“ eins og það var orðað í fréttinni.Við þetta er eitt og annað að athuga. Í fyrsta lagi hefur menningar- og viðskiptaráðherra lítið að segja um það hvaða arðsemiskröfu ríkið gerir til eignarhlutar síns í Landsbankanum. Verður þó að telja fréttnæmt að hvorki fréttamaður ríkismiðilsins né ráðherra viðskipta geri sér grein fyrir þessari staðreynd.

Í fyrsta lagi hefur menningar- og viðskiptaráðherra lítið að segja um það hvaða arðsemiskröfu ríkið gerir til eignarhlutar síns í Landsbankanum. Verður þó að telja fréttnæmt að hvorki fréttamaður ríkismiðilsins né ráðherra viðskipta geri sér grein fyrir þessari staðreynd.

Arðsemiskrafa ríkisins til Landsbankans er sett í samningi á milli Bankasýslu ríkisins og Landsbankans sem gerður var árið 2010. Í samningnum segir:

„Landsbankinn skal hafa að markmiði að arðsemi af reglulegum rekstri til lengri tíma litið sé þannig að bankanum sé unnt að auðga við eigið fé sitt á almennum markaði við eðlileg markaðsskilyrði. Þá skal litið til þess að eignahlutir eigenda bankans verði álitlegur fjárfestingakostur.“

Og enn fremur:

„Að lágmarki skal stefna að 7% arðsemi af reglulegum rekstri umfram áhættulausa vexti miðað við 12% eiginfjárhlutfall. Þegar gerð er krafa um 16% eiginfjárhlutfall ber að stefna að arðsemi nemi að lágmarki 5,25% umfram áhættulausa vexti.Aukinni arðsemi skal náð með arðbærni undirliggjandi rekstrar að leiðarljósi. Í þessu getur falist árangur í markaðsstarfi, fækkun starfsmanna og útibúa, lækkun kostnaðarhlutfalls, sameiningar o.s.fv. Ekki er ætlast til að aukinni arðsemi sé náð með óhóflegri aukningu í vaxtamun.“

Þessi samningur verður því ekki rifinn upp að frumkvæði viðskiptaráðherra eins og látið er í veðri vaka í fréttinni. Í öðru lagi er nánast óhugsandi að Eftir­litsstofnun EFTA léti það óátalið ef íslenska ríkið færi að beita sér fyrir niðurgreiðslu á bankaþjónustu viðskiptavina ríkisbankans í samkeppni við aðra banka. ­Ekkert af þessu kom fram í frétt RÚV.

***

Háir vextir og þrálát verðbólga setja mark sitt á rekstur sveitarfélaga um þessar mundir. Bæði Kópavogur og Reykjavík birtu árshlutauppgjör í síðustu viku. Áhugavert var að fylgjast með því hvernig fjölmiðlar fjölluðu um afkomu þessara tveggja stærstu sveitarfélaga landsins.

Rekstrarniðurstaða Kópavogsbæjar á fyrri helmingi ársins 2023 var neikvæð um 1,4 milljarða króna en gert var ráð fyrir rekstrar­halla að fjárhæð 754 milljónir króna. Afkoma fyrir fjármagnsliði, það er vexti og verðbætur, var jákvæð sem nemur 591 milljón en gert hafði verið ráð fyrir 534 milljónum, sem bendir til að reksturinn sé í einhverju jafnvægi.

Reykjavíkurborg var rekin með 6,7 milljarða króna tapi fyrstu sex mánuði ársins samkvæmt samstæðureikningi. Er það 12,8 milljörðum króna lakari niðurstaða en ráðgert var samkvæmt fjárhagsáætlun. Borgarsjóður var gerður upp með 921 milljónar króna tapi samkvæmt fjárhagsáætlun og átti að reka hann með 857 króna hagnaði á tímabilinu. Skuldasöfnunin er stjórnlaus í rekstrinum. Áætlanir gerðu ráð fyrir að skuldirnar yrðu 194 milljarðar í árslok en þær voru komnar í þær hæðir strax í júnímánuði og verða væntan­lega langt yfir 200 milljörðum í desember­lok.

Fleira fréttnæmt var að finna í afkomutilkynningunni. ­Meðal annars það að Félagsbústaðir ramba á barmi gjaldþrots. Fram kemur í skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs með uppgjörinu að veltufé frá rekstri Félagsbústaða standi ekki undir afborgunum og að Reykjavík verði að grípa til aðgerða. Er þetta ekki síst áhugavert í ljósi þess að endurmat í fasteignum Félags­bústaða – ­eignum sem ekki stendur til að selja – hefur verið áberandi þáttur í fegra afkomu borgarinnar á undanförnum árum.

Enginn fjölmiðill vakti athygli á þessu. Almennt fjölluðu þeir með jákvæðum hætti um afkomu borgarinnar. Reyndar vakti Heimildin einn fjölmiðla athygli á þeirri áhugaverðu staðreynd að arðgreiðsla Orkuveitunnar var greidd Reykjavíkurborg og það gjörbreytti rekstrar­tölum A-hlutans í þetta sinn.

Þegar Vísir flutti fréttir af rekstrarniðurstöðu Kópavogs annars vegar og Reykjavíkur hins vegar var handbragðið með ólíkum hætti. Fyrirsögnin með fréttinni um Kópavog var: Rekstrarhalli Kópavogs tæplega tvöfalt meiri en spáð var. Blaðamenn Vísis voru hins vegar mun jákvæðari þegar kom að Reykjavík. Með þeirri frétt fylgdi fyrir­sögnin: Árshlutareikningur borgarinnar sýni jákvæðan viðsnúning. Vafalaust hefur Vísir fengið ábendingu um framsetninguna því að fyrirsögninni var snögglega breytt í: Reksturinn jákvæður ef ríkið tæki slaginn með fötluðu fólki.Þá vakti athygli að sama dag og Reykjavík birti uppgjörið var Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í löngu viðtali í fyrstu frétt í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins. Ekki var þar einu orði minnst á afkomuna og það sem orkar tvímælis í rekstri borgarinnar.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum skoðanapistlum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild sinni í blaðinu sem kom út þann 13. September.