Árið sem er að líða hefur verið róstusamt á fjármálamörkuðum.Væntingar um betri tíð með blóm í haga mögnuðust af því þegar sóttvarnaaðgerðum var aflétt að fullu á útmánuðum þessa árs. Þær brustu við innrás Rússa í Úkraínu.

Árásarstríð rússneskra stjórnvalda varð kveikurinn að þróun á hrávörumörkuðum sem í augum margra var fyrirsjáanleg. Lágvaxtastefna um árabil í stærstu hagkerfum heims hlyti á endanum að brjótast fram í verðbólgu og í þetta sinn varð það óvissa á vettvangi alþjóðamála sem hratt þeirri atburðarrás af stað.

Verðbólga og vaxtahækkanir fara sjaldnast mjúkum höndum um hlutabréfamarkaði. Það reyndist raunin hér á landi. En við árslok eru ýmis tekn á lofti um að betri tímar séu fram undan.

Þrátt fyrir verðbólgu, háa vexti, gengislækkun og viðskiptahalla er ýmislegt sem bendir til þess að hið versta sé afstaðið. Búið er að semja við stóran hluta hins almenna vinnumarkaðar og segja má að um varnarsigur sé að ræða í þeim efnum. Viðsemjendur sýndu ábyrgð út frá efnahagslegum aðstæðum og sömdu til skamms tíma. Enn er ósamið við Eflingu og dylst engum að forráðamenn félagsins kjósa helst að láta sverfa til stáls. En vafalaust er lítil stemning fyrir slíku vopnaglamri á næstu mánuðum.

Þó að mótbyr hafi verið á fjármálamörkuðum hefur margt skotið sterkari stoðum undir íslenskan hlutabréfamarkað á árinu. Vaxandi þátttaka almennings samhliða fjölgun skráðra fyrirtækja er fagnaðarefni. Á árinu bættust fjögur félög í Kauphöllina: Alvotech, Amaroq, Nova og Ölgerðin. Það vakti sérstaka athygli að fólk undir þrítugu var fjórðungur þeirra sem tóku þátt í útboði Ölgerðarinnar. Það er fagnaðarefni að ungt fólk líti í vaxandi mæli til hlutabréfamarkaðarins þegar kemur að ráðstöfun sparnaðar og veitir vísbendingu um að fjármálalæsi þessa aldurshóps sé betra en stundum er haldið fram í opinberri umræðu.

Ljóst er að valkostum mun fjölga enn frekar í Kauphöllinni á næstu mánuðum. Hampiðjan verður skráð á aðallista Kauphallarinnar og ferðaþjónustan mun setja sterkari svip á markaðinn þegar Arctic Adventures, Bláa lónið og Íslandshótel verða tekin til skráningar. Þá hefur fasteignafélagið Kaldalón boðað skráningu á hlutabréfamarkað á komandi ári.

Á sama tíma og þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði eykst jafnt og þétt og fyrirtækjaflóran verður fjölbreyttari styrkist alþjóðleg tenging hans. Íslenski markaðurinn var færður í flokk nýmarkaðsríkja í FTSE Russell-vísitölunni haust. Þó svo að margir hafi búist við meiri lúðraþyt við það tilefni er ekkert vafamál að þetta styrkir markaðinn til lengri tíma litið. Að sama skapi má gera ráð fyrir að innan fárra ára verður íslenski markaðurinn hækkaður um flokk hjá MSCI sem yrði umtalsverður viðburður.

Vissulega eru blikur á lofti á erlendum eignamörkuðum sökum óvissu á vettvangi alþjóðamála og þrálátrar verðbólgu. Á móti kemur að mikill kraftur er í íslensku hagkerfi og búast má við aukinni þátttöku erlendra fjárfesta á íslenskum hlutabréfamarkaði á komandi misserum. Í ljósi þessa er ekkert vafamál að íslenska ríkið á að ljúka við sölu á restinni á hlut sínum í Íslandsbanka á næsta ári í almennu útboði. Þrátt fyrir hið mikla moldviðri sem stjórnarandstæðingar þyrluðu upp eftir síðasta útboð stendur ekkert eftir af gagnrýninni annað en að heppilegra hefði verið að selja þann hlut í opnu útboði. Skráningar nýrra félaga og þátttaka almennings sýnir svo ekki sé um villst að hann hefur fullt traust á markaðnum. Auk þess að sá fráleiti halli sem er boðaður á rekstri ríkissjóðs á næsta ári hreinlega kallar á þá sölu. Gera má ráð fyrir að salan á rest ríkisins í Íslandsbanka geti skilað tæplega 80 milljarða króna í ríkissjóð.

Rétt fyrir fjármálakreppuna 2008 var rætt um öfundsverðar langtímahorfur þegar kom að Íslandi. Kaldhæðni örlaganna er að þetta mat reyndist að stórum hluta rétt. Þetta á jafnframt enn við í dag: Horfurnar eru ágætar. En það eru hættumerki á lofti. Þörf er að sýna meiri ábyrgð í rekstri ríkis og sveitarfélaga og koma verður í veg fyrir að viðskiptahallinn verði viðvarandi. Takist það má vænta þess að vextir lækki að nýju og það ásamt ofangreindum þáttum mun styrkja enn frekar við hlutabréfamarkaðinn á komandi árum.

Að þessu sögðu óskar Viðskiptablaðið lesendum gleðilegrar hátíðar og takmarkalausrar farsældar á komandi ári.