Það er þetta með bjálkana og flísarnar.
Það er þetta með bjálkana og flísarnar.
Týr sá að Guðmundur Helgi Björgvinsson ríkisendurskoðandi reitti hár sitt og skegg sökum þess að sjóðir og sjálfseignarstofnanir hafa ekki staðið sig í stykkinu þegar kemur að því að skila ársreikningum til stofnunarinnar.
Í tilkynningu á vef Ríkisendurskoðunar sem birtist í síðustu viku segir að þeim sem beri ábyrgð á sjóði eða stofnun að senda Ríkisendurskoðun ársreikning sjóðs eða stofnunar ásamt skýrslu um hvernig fé hefur verið ráðstafað.
***
Gott og vel. Týr getur alveg tekið undir þetta með ríkisendurskoðanda enda er svona slóðaháttur ólíðandi með öllu. En gott væri ef ríkisendurskoðandi liti í eigin barm. Ríkisendurskoðun hefur nefnilega ekki skilað ársskýrslu um störf stofnunarinnar frá árinu 2021.
Ekki það að almenningur bíði spenntur ár hvert að fá ársskýrslu Ríkisendurskoðunar í hendurnar. Samt sem áður eru skil ríkisstofnana á skýrslum um liðin starfsár sjálfsögð þjónusta við borgarana og stuðlar að gagnsæi. Það að ríkisendurskoðandi hirði ekki um að skila slíkum skýrslum endurspeglar virðingarleysi gagnvart skattgreiðendum.
***
Þetta snýst ekki bara um virðingu gagnvart þeim sem fjármagna rekstur stofnunarinnar. Áhugavert væri að lesa um framgang ýmissa mála sem hafa verið á könnu Ríkisendurskoðunar á undanförnum árum.
Í því samhengi má rifja upp að Ríkisendurskoðun birti skýrslu um hvernig staðið var að sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka í lokuðu útboði fyrir tveimur árum síðan. Ríkisendurskoðandi gagnrýndi söluna meðal annars á þeirri forsendu að hann hefði getað fengið miklu hærra verð fyrir hlutinn og kvartaði sáran yfir því að ríkið hefði ekki á snærum sínum sérhæfða stofnun uppfulla af fjármálafakírum á háum launum sem hefði það eina hlutverk að sjá um útboð á hlutabréfum á vegum ríkisins.
Þegar fulltrúar Bankasýslunnar svöruðu svo fyrir útboðið á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis ofbauð ríkisendurskoðanda svo framganga þeirra að hann boðaði sérstaka eftirfylgni með stjórnsýsluúttekt embættisins á sölunni. Týr man ekki eftir að hafa lesið neitt um niðurstöður þeirrar eftirfylgni og hlakkar því mikið til um að lesa um það þegar og ef ársskýrslur Ríkisendurskoðunar birtast á ný.
Týr er einn af föstum ritsjtórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 4. september 2024.