Í einum af þeim fjölmörgu þáttum sem gerðir hafa verið um Simpson-fjölskylduna kemur bangsinn Bóbó við sögu. Þátturinn sækir í smiðju Orson Welles og meistaraverksins Citizen Kane. Bóbó var í eigu auðmannsins Montgomery Burns í æsku en glataðist og var allar götur síðan sárt saknað. Mörgum árum síðar skýtur bangsinn upp kollinum á heimili Simpson-hjónanna og þegar það spyrst út heitir Burns fundarlaunum gegn því að fá bangsann í sínar hendur. Þegar gengið er til samningaviðræðna hefur Hómer hugfast að hann eigi ávallt að hafna fyrsta tilboði. Hann rýkur svo á dyr með bangsann eftir að Burns býður honum upp á drykk við upphaf viðræðnanna. Þessi þáttur kom upp í hugann þegar fréttir bárust af því að VR hafi slitið kjaraviðræðum SA.

***

Viðræðuslit VR vekja upp margar spurningar. Fæstum þeirra hefur verið svarað í fjölmiðlum undanfarna daga.  Í viðtölum við fjölmiðla hefur Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR verið loðinn í svörum. Aðspurður um ástæður viðræðuslitanna  vísar hann með handahófskenndum hætti í verðbólgu, vaxtahækkanir og efnahagsleg móðuharðindi sem að hans sögn eru nú uppi. Af þessu má leiða að Ragnar hafi gengið til viðræðna við SA um að leysa óréttlæti heimsins í eitt skipti fyrir öll og það hafi mistekst. Vafalaust má margt segja um Halldór Benjamín Þorbergsson og Ragnar Árnason, framkvæmdastjóra og forstöðumann vinnumarkaðssviðs SA, en heimsins óréttlæti verður seint í þeirra höndum þó svo að skiljanlegt sé að sá síðarnefndi veki slík hughrif.

Með öðrum orðum hefur VR slitið viðræðum og útilokar Ragnar ekki verkföll fyrir jól. Á sama tíma halda viðræður áfram við stéttarfélög á borð við SGS og önnur. Verkalýðsfélag skrifstofumanna og annars millitekjufólks kastar stríðshanskanum meðan verkalýðurinn virðist lausnamiðari og heldur áfram viðræðum við SA. Það vekur athygli að Ragnar hafi ekki verið spurður út í þessa þversögn og leiða má líkum að því að félagsmenn VR hefðu átt að vera fyrstir til í þeim efnum.

Þrátt fyrir fjölda viðtala hefur Ragnar sloppið við að svara áleitnum spurningum. Enda hafa þær ekki verið spurðar. Það er ekki trúanlegt að orð ráðamanns á fundi út í bæ hafi ráðið úrslitum í þeim efnum. Að því sögðu verður ekki komist hjá því nefna stórfurðulegt útspil Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara sem sneri að því seðlabankastjóri eigi að sýna aðgát í nærveru sálar hinnar ofur viðkvæmu verkalýðshreyfingar: Er þetta ekki fullorðið fólk sem hefur fengið umboð til að semja um kaup og kjör? Þarf virkilega að beina tilmælum til annars fólks um að það gæti orða sinna svo að verkalýðsforystan móðgist ekki.

Verkalýðshreyfingin brást illa við þegar Seðlabankinn hækkaði vexti í síðustu viku. Þrátt fyrir að seðlabankastjóri hafi gefið í skyn fyrir nokkru að hugsanlega væri þetta vaxtahækkunarferli að renna sitt skeið á enda og hafa verðbólguhorfur versnað frá því að þau orð voru látin falla. Vaxtahækkunin var því ekki óvænt í ljósi þeirra markmiða sem löggjafinn hefur sett Seðlabankanum. Í fjölmiðlum segja verkalýðsrekendur vaxtahækkanir bitna harðast á þeim sem lægstar hafa tekjurnar. En rétt er að hafa í huga að þeir segja það nákvæmlega sama þegar verðbólgutölur eru birtar: Að verðbólgan bitni harðast á þeim sem eru tekjulægstir. Í því ljósi hljóta fjölmiðlar að þurfa að spyrja hvað verkalýðsforystan ætlist til að seðlabankinn geri? Hvaða tillögur hefur verkalýðsforystan í baráttunni gegn verðbólgu aðrar en þær að hækka laun rosalega mikið? Það væri áhugavert að fá svör við þeirri spurningu.

Annað þessu tengt: Í viðtölum í tengslum við gerð kjarasamninga hefur Ragnar oftar en einu sinni vísað til ítarlega greiningarvinnu VR á afkomu íslenskra fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum. Að sögn hans sýnir sú greining að nánast öll fyrirtæki eru aflögufær og ríflega það þegar kemur að launahækkunum. Hvers vegna hafa fjölmiðlar ekki gengið eftir því að fá aðgang að þessum gögnum?

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 1. desember 2022.