„Má ég spyrja Pétur, finnst þér ekki komið nóg af mér?“ Þannig spurði Vigdís Finnbogadóttir þegar ég tók viðtal við hana haustið 2010 – og fylgdi orðunum íhugult augnaráð. „Svona tala kannski bara konur,“ bætti hún við.
Við þurfum sem þjóð góðar fyrirmyndir og heimurinn líka. Mikið varð ég því glaður þegar ég sá hversu vandað er til verka í þáttunum um Vigdísi, yfirbragðið heillandi og leikurinn leiftrandi.
Það hefur verið upplit á rótföstum kennurum Menntaskólans í Reykjavík þegar Vigdís mætti í skólann í strákafötum. Nokkuð sem ekki þætti tiltökumál í dag, en var bylting í þá daga. Hún vildi að stelpurnar væru teknar alvarlega eins og strákarnir. Þær væru ekki eingöngu í skólanum til að finna mannsefni.
Þetta hefur verið samnemendum hennar innblástur, bæði stelpum og strákum. Svona byltingar spretta úr tíðarandanum og nýjar kynslóðir eru fljótar að grípa hugmyndina.
Í Mýrarhúsaskóla áttum við slíkan byltingarmann. Í bekknum var Kristrún Heimisdóttir, sem átti eftir að beita sér í þjóðmálum. Mörgum til undrunar og jafnvel hneykslunar steig hún fram fyrir skjöldu og barðist fyrir því að stelpurnar fengju úthlutað fótboltavellinum á skólalóðinni til jafns við strákana.
Þá var enn framandi hugmynd að þegar stelpur færu út að leika, þá veldu þær fótbolta. Þar var Kristrún hinsvegar á heimavelli. Í strákaliði Gróttu var Kristján Finnbogason markvörður, síðar margfaldur Íslandsmeistari, og frammi var markahrókurinn Kristján Brooks. En það var Kristrún sem bar fyrirliðabandið.
Svo fór að Kristrún náði sínu fram. Vellinum var úthlutað í frímínútum, stelpur fengu að spreyta sig og svo komust yngri árgangar að! Ætli megi ekki segja, að Kristrún hafi verið okkar Vigdís.
Heimurinn fær aldrei nóg af þessum Vigdísum.