Það blasir við að það er eitthvað verulega brotið í íslenskum landbúnaði en ekki er ólíklegt að þetta „eitthvað“ sé báknið sem réttir bændum pening með annarri hendi til að bæta fyrir það að á sama tíma séu þeir kýldir í andlitið með hinni. Við einkareknu fjölmiðlarnir þekkjum þetta bragð báknsins orðið ágætlega.

***

Ríkið verður að hætta að ausa peningum skattgreiðenda í að viðhalda kerfi sem ekki virkar fyrir neinn, hvorki bændur né skattgreiðendur. Landbúnaðurinn væri ekki í þessari stöðu ef spjótum hefði miklu fyrr verið beint að því að auka færni greinarinnar til að standa á eigin fótum.

Hvernig væri að búa þannig um hnúta að greinin verði ekki jafn háð innfluttum hráefnum? Réttlæting fjárausturins í nafni innlends fæðuöryggis fer fyrir lítið þegar framleiðslan er háð innflutningi. Hvernig væri að skoða hvernig bæta megi samningsstöðu frumframleiðenda gagnvart viðsemjendum um verð, svo verðlagning afurða sé eðlileg? Þótt verðmiðinn í búðinni hækki, mætti lækka skatta á móti. Það er skilvirkara að tekjur komi beint úr vasa neytenda án þess að báknið sé sérstakur milliliður. Aðkoma báknsins hefur líka letjandi áhrif á samkeppni, nýsköpun, markaðsstarf o.fl. í landbúnaði, og þar með framþróun greinarinnar. Þessu þarf að breyta.

Týr er skoðanadálkur en þessi birtist í Viðskiptablaðinu 16. júní 2022.