Hrafnarnir hafa tekið eftir að mikil eftirvænting er fyrir Strategíudeginum svokallaða sem er haldinn í dag undir yfirskriftinni: Hetjusögur úr atvinnulífinu. Það er ráðgjafafyrirtækið Strategía sem er í eigu Guðrúnar Ragnarsdóttur, Helgu Hlínar Hákonardóttur og Margrétar Sanders sem stendur fyrir viðburðinum. Það eru svokallaðar „hetjusögur“ úr rekstri hins opinbera sem hrafnarnir eru hvað spenntastir fyrir. Þar verður meðal annars sagt frá þeim miklu áskorunum sem starfsmenn Fríhafnarinnar tókust á við með fjölgun ferðamanna. Þetta hefur verið mikil áskorun fyrir reksturinn svona í ljósi þess að það er nánast ómögulegt fyrir ferðamenn að fara í gegnum flugstöðina án þess að fara gegnum Fríhöfnina.
Þá eru hrafnarnir ekki síður spenntir fyrir að heyra hetjusögurnar úr Umhverfisstofnun en samkvæmt kynningu hefur stofnunin unnið „með markvissum hætti að halda fókus og staðfestu innan skipulagsheildarinnar þrátt fyrir pólitískar sviptingar í umhverfinu“. Þá verður Þorsteinn Gunnarsson borgarritari með erindi um hina farsælu eigendastefnu Reykjavíkurborgar sem hefur fært borgarbúum svo mikla velsæld. Hrafnarnir telja að það erindi muni sanna hið fornkveðna: Ekki bera allar hetjur skikkjur.
Huginn og Muninn er einn af skoðanapistlum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild sinni í blaðinusem kom út 6. september.